- Auglýsing -

Molakaffi: Svala Júlía, Elín Freyja, Grétar Ari, Tumi Steinn, Díana Dögg, Sandra, Ágúst Ingi, Felix Már, Bjartur Már

Svala Júlía Gunnarsdóttir, önnur f.v. ásamt Kristrúnu Steinþórsdóttur, Ernu Guðlaugu Gunnarsdóttur og Perlu Ruth Albertsdóttur. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
  • Línumaðurinn Svala Júlía Gunnarsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Fram. Svala Júlía hefur verið burðarás í Fram U liðinu í Grill66-deild kvenna undanfarin ár og hefur hlutverk hennar stækkað á yfirstandandi keppnistímabili. 
  • Elín Freyja Eggertsdóttir tók í vikunni við formennsku í handknattleiksdeild ÍR á aðalfundi deildarinnar. Elín Freyja tók við af Matthíasi Imsland sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. „Tæplega 10 milljóna kr hagnaður var á rekstri deildarinnar á síðasta starfsári auk þess sem deildin er nánast skuldlaus. Mikil aukning iðkenda hefur verið hjá félaginu og hefur iðkendum fjölgað 4 annir í röð. Hefur náðst sérstaklega góður árangur að fjölga iðkendum í yngstu flokkum kvenna,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR. Handbolti.is sagði á dögunum frá ánægjulegum viðsnúningi í rekstri handknattleiksdeildar ÍR
  • Grétar Ari Guðjónsson varði 11 skot, þar af þrjú vítaköst, þegar lið hans Nice gerði jafntefli við Cherbourg, 30:30, á útivelli í frönsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Nice er í fimmta sæti deildarinnar með 27 stig þegar sjö umferðir eru eftir. Grétar Ari stóð allan leikinn í marki Nice. Hlutfallsmarkvarsla hans var 27,5%.
  • Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar fyrir lið sitt, Coburg, þegar það tapaði naumlega í hörkuleik við Hamm-Westfalen í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Leikið var á heimavelli Hamm-Westfalen-liðsins. Coburg, sem er í 14. sæti af 20 liðum deildarinnar, var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:14.
  • Vegna veikinda í herbúðum þýska 1. deildarliðsins Metzingen hefur leik liðsins við BSV Sachsen Zwickau sem Díana Dögg Magnúsdóttir leikur með verið frestað. Til stóð að leikurinn færi fram í dag. Um er að ræða annan helgarleikinn í röð hjá Sachsen Zwickau sem er frestað vegna kórónuveiru í herbúðum andstæðinganna. Fyrir veikindi hjá Metzingen voru leikmenn Leverkusen veikir.
  • Sanda Erlingsdóttir gengur til liðs við Metzingen í sumar. Sandra kveður EH Aalborg í Danmörku í dag þegar liðið leikur síðasta leik sinn í dönsku 1. deildinni gegn AGF í Álaborg. 
  • Felix Már Kjartansson skoraði níu mörk og Ágúst Ingi Óskarsson sex þegar Neistin tapaði fyrir Kyndli, 30:28, í umspili liðanna í neðri hluta færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikið var í Høllinni á Hálsi í Þórshöfn
  • Bjartur Már Guðmundsson skoraði eitt af mörkum StÍF í sigri á H71-2, 36:19, einnig í keppni neðri liðanna í færeysku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Viðureignin fór fram í Høllinni á Skála.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -