- Lasse Svan Hansen lék sinn síðasta leik fyrir danska landsliðið í gær þegar Danir unnu stórsigur á Pólverjum í vináttulandsleik, 30:20, í Royal Arena í Kaupmannahöfn. Svan lék sinn fyrsta landsleik fyrir 19 árum og alls urðu landsleikirnir 246. Svan sem leikur í hægra horni hefur verið mikilvægur hlekkur í sterku dönsku landsliði um árabil. Hann hefur orðið heimsmeistari, Ólympíumeistari og Evrópumeistari. Svan leikur með Flensburg út keppnistímabilið en hyggst þá hætta sem atvinnumaður í handknattleik.
- Mikið var um dýrðir af þessu tilefni í Royal Arena. Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana tók leikhlé þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Í leikhléinu var Svan hylltur af leikmönnum beggja liða með lófaklappi og áhorfendur tók undir. Á síðustu mínútunni skoraði Svan síðasta mark leiksins úr vítakasti. Eftir að leiknum var lokið var Svan kvaddur með standandi lófaklappi.
- Sara Sif Helgadóttir var í leikmannahópi Vals í gær gegn KA/Þór en hún hefur verið fjarverandi í nokkrar viku eftir að hafa fengið bylmingsskot í höfuðið í viðeign við ÍBV í Origohöllinni. Sara Sif spreytti sig í tveimur vítaköstum í leiknum í gær en lét Sögu Sif Gísladóttur eftir að verja mark Vals en stóð Saga Sif sig með sóma.
- Markus Gaugisch tekur við þjálfun þýska kvennalandsliðsins í sumar þegar núverandi landsliðsþjálfari Henk Groener lætur af störfum. Gaugisch er 48 ára gamall og er þjálfari kvennaliðs Bietigheim og verður það áfram á næsta keppnistímabili samhliða þjálfun landsliðsins. Samningur Gaugisch við Bietigheim rennur út um mitt næsta ár.
- Handknattleiksþjálfarinn Jakob Lárusson þjálfar hugsanlega í Færeyjum á næsta keppnistímabili. Eftir því sem handbolti.is hefur hlerað fer Jakob á næstunni til Færeyja til viðræðna við forráðamenn félags þar í landi. Jakob hefur m.a. þjálfað hjá FH, Val og var síðast hjá ÍR en hætti þar á miðju keppnistímabili.
- Daniel Gordo og Nuno Farelo, sem hafa þjálfað hvítrússneska handknattleiksliðið Meshkov Brest síðasta árið eru hættir störfum. Brest tapaði í vikunni fyir SKA Minsk auk þess að hafa ekki náð sér á strik í Meistaradeild Evrópu á keppnistímabilinu.
- Egypski handknattleiksmaðurinn Ali Zein kveður Barcelona í sumar og gengur til liðs við Dinamo Búkarest. Xavi Pascual núverandi þjálfari Dinamo fékk Zein til Barcelona fyrir ári en hætti síðan störfum.
Lasse Svan Hansen hefur leikið sinn síðasta landsleik fyrir Dani. Mynd/EPA