- Auglýsing -
- Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma viðureign Portúgal og Tyrklands í fyrsta riðli undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Matosinhos við Porto í kvöld.
- Kristján Halldórsson verður eftirlitsmaður í Höllinni á Hálsi á sunnudaginn þegar Færeyingar taka á móti Austurríkismönnum í annarri umferð Evrópukeppni karla í handknattleik, 4. riðli.
- Öll fimm vítaköstin sem dæmd voru í leik Íslendinga og Ísraelsmanna í undankeppni EM karla á Ásvöllum í gærkvöldi fóru fyrir ofan garð og neðan. Íslenska liðið fékk tvö en Ísraelsmenn þrjú. Björgvin Páll Gústavsson varði tvö og Ágúst Elí Björgvinsson eitt. Bjarki Már Elísson og Hákon Daði Styrmisson nýttu ekki vítaköst íslenska landsliðsins.
- Rakel Sara Elvarsdóttir og Dana Björg Guðmundsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor þegar lið þeirra Volda tapaði fyrir Storhamar, 36:22, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði ekki fyrir Volda að þessu sinni. Halldór Stefán Haraldsson og Hilmar Guðlaugsson þjálfa Voldaliðið sem rekur lestina í deildinni með tvö stig eftir sex leiki. Storhamar lyftist upp í sjöunda sæti með sigrinum.
- Fredrikstad Bkl. sem Elías Már Halldórsson þjálfar tókst að veita Evrópumeisturum Vipers Kristiansand ágæta keppni á heimavelli í gær og sleppa með fimm marka tap, 33:28. Flest lið í norsku úrvalsdeildinni steinliggja fyrir Vipers. Alexandra Líf Arnarsdóttir kom lítið við sögu í leiknum en hún er leikmaður Fredrikstad Bkl. sem er í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir sex leiki.
- Steinunn Hansdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Skanderborg Håndbold í 12 marka tapi á heimavelli fyrir København Håndbold, 40:28. Steinunn og félagar eru í næst neðsta sæti deildarinnar með eitt stig eftir sjö leiki. SønderjyskE er án stiga.
- Ringkøbing Håndbold vann Viborg , 31:28, á heimavelli og mjakaðist aðeins frá neðstu liðunum tveimur í dönsku úrvalsdeildinni. Elín Jóna Þorsteinsdóttir er á sjúkralista hjá Ringkøbing og Lovísa Thompson var leyst undan samningi að eigin ósk á dögunum
- Casper Ulrich Mortensen var skyndlega kallaður inn í danska landsliðið í fyrradag eftir að Magnus Landin veiktist og varð lagður inn á sjúkrahús í Kaupmannahöfn. Landin fékk högg í kviðinn í leik með Kiel gegn Füchse Berlin á sunnudaginn. Afleiðingarnar gerðu ekki vart við sig fyrr en hann fór að æfa með danska landsliðinu á mánudaginn. Danir unnu Spánverja örugglega í gærkvöld, 39:31, á heimavelli í Evrópubikarkeppni landsliða.
- Auglýsing -