- Auglýsing -
- Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir GWD Minden sem vann Wetzlar í heimsókn til liðsins í gær, 27:25. Sveini var einu sinni gert að vera utan vallar í tvær mínútur. GWD Minden hefur þar með fengið þrjú af mögulega fjórum stigum í síðustu tveimur leikjum en er áfram næsta neðst í þýsku 1. deildinni með sjö stig. Wetzlar er næst fyrir ofan með níu stig en hefur leikið tveimur leikjum meira en Minden.
- Teitur Örn Einarsson og samherjar hans í Flensburg færðust upp í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar í gær með öruggum sigri á ASV Hamm, 37:29, á heimavelli botnliðs deildarinnar. Teitur Örn skoraði ekki mark í leiknum. Flensburg hefur þar með 37 stig eftir 24 leiki. Magdeburg er með sama fjölda stiga en hefur lokið 23 leikjum. Kiel er í öðru sæti með 38 stig í 23 leikjum. Füchse Berlin er efst með 39 stig en hefur lagt að baki 24 leiki. Rhein-Neckar Löwen er í fimmta sæti með 37 stig en hefur lokið við 25 leiki.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark fyrir TuS N-Lübbecke þegar liðið vann Tusem Essen, 41:35, í 2. deild þýska hanboltans í gær. TuS N-Lübbecke er í öðru sæti.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu í sjö marka tapi Coburg, 27:20, fyrir Dormagen á útivelli í þýsku 2. deildinni í gær. Coburg er í 13. sæti af 20 liðum með 23 stig í 28 leikjum. Tíu umferðir eru eftir.
- Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk fyrir Telekom Veszprém þegar liðið vann granna sína í Fejér B.Á.L.-Veszprém, 49:30, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Telekom Veszprém er efst í deildinni með 39 stig að loknum 20 leikjum. Pick Szeged er stigi á eftir. Fejér B.Á.L.-Veszprém er í þriðja neðsta sæti með átta stig.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir GC Amicitia Zürich þegar liðið tapaði með sjö marka mun fyrir LC Brühl Handball, 30:23, í svissnesku A-deildinni í gær. Sunna Guðrún Pétursdóttir náði sér ekki á strik í marki GC Amicitia Zürich. Hún varði fjögur skot, 17%.
- Jakob Lárusson stýrði Kyndli til sigurs á VB, 27:21, í viðureign liðanna í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Leikið var á heimavelli VB í Vági. Kyndill hefur þar með lokið leikjum sínum í deildarkeppninni og hafnar í öðru sæti með 32 stig í 21 leik, er níu stigum á eftir H71 sem er deildarmeistari. Framundan er úrslitakeppnin.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk fyrir PAUC þegar liðið vann Chartres, 29:27, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld. PAUC situr í sjöunda sæti deildarinnar með 20 stig eftir 22 leiki.
- Auglýsing -