- Auglýsing -
- Þórey Rósa Stefánsdóttir og Stefán Darri Þórsson voru útnefnd handknattleiksfólk ársins 2021 hjá Fram áður en kom að kjöri íþróttamanns félagsins fyrir nýliðið ár. Þau hrepptu þó ekki hnossið að þessu sinni heldur kom það í hlut Ólafs Íshólms Ólafssonar markvarðar knattspyrnuliðs félagsins.
- Þrír leikmenn sem valdir voru í sænska landsliðið fyrir EM karla í handknattleik eru fjarri góðu gamni þessa daga þegar æfingar landsliðsins eru hafnar. Karl Wallinius er í einangrun með covid smit. Lucas Pellas er í sóttkví eftir að hafa verið nærri smituðum einstaklingi og Lukas Sandell varð faðir á nýárskvöld. Óvíst er hvenær Sandell mætir til æfinga vegna þess að barnið kom í heiminn talsvert fyrr en til stóð. Emil Mellegård, Andreas Lang og Fabien Norsten hafa hlaupið í skarðið fyrir þremenningana.
- Norður Makedóníumenn unnu Ísraelsmenn, 31:28, í vináttulandsleik í Skopje í gærkvöld. Þetta var fyrri vináttuleikur þjóðanna. Sá síðari fer fram á sama stað í kvöld. Um er að ræða lið í undirbúningi Norður Makedóníumanna fyrir EM. Ísraelsmenn eru á hinn bóginn að búa sig undir forkeppni heimsmeistaramótsins sem hefst á föstudag. Ísrael verður í riðli með Rúmenum, Kýpurbúum og Moldóvum í riðli sem fram fer í Cluj í Rúmeníu.
- Fullreynt þykir að Petar Nenadić verði búinn að jafna sig af meiðslum áður en keppni á Evrópumeistaramótinu hefst eftir 10 daga. Hann leikur þar af leiðandi ekki með Serbum á mótinu. Um er að ræða talsvert áfall fyrir serbneska landsliðið enda er Nenadić einn allra öflugasti handknattleikmaður Serba um þessar mundir.
- Auglýsing -