- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Til Japan, Cindric, Dinamo, Íslendingar mætast, afmæli, ÓL-meistarar

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Flest stærri handknattleikslið á meginlandi Evrópu hófu fyrir nokkru æfingar á nýjan leik eftir sumarleyfi. Mörg þeirra leika æfingaleiki um þessar mundir, annað hvort staka leiki eða eru með í smærri mótum. Franska meistaraliðið PSG lætur sér ekki nægja að leika æfingaleiki við grannlið sín í Frakklandi eða fara yfir grannlanda. Um þessar mundir er PSG í æfingabúðum í Japan þar sem m.a. stendur til að leika tvo æfingaleiki gegn japönskum félagsliðum.
  • Króatíski handknattleiksmaðurinn Luka Cindric er þessa dagana sterklega orðaður við Dinamo Búkarest. Barcelona þarf að skera niður í útgjöldum vegna skulda og óreiðu hjá knattspyrnuliði félagsins sem bitnar m.a. á handknattleiksliðinu. Cindric er á meðal þeirra sem lent hefur undir niðurskurðarhnífnum enda sagður þungur á fóðrum. Hermt er samkvæmt MundoDeportivo, að Cindric hafi 700 þúsund evrur í laun yfir árið, jafnvirði rúmlega 100 milljóna króna.
  • Hægt en örugglega mun hafa gengið í viðræðum Cindric og Barcelona um hvernig binda skuli enda á samninginn þeirra í milli, samning sem endurnýjaður var í fyrra og gildir til ársins 2025. Vonir standa til að samkomulag liggi fyrir fljótlega og Cindric fái greitt annað árið sem hann á eftir af samningnum. Um leið og samkomulag verður í höfn er reiknað með Cindric gangi til liðs við Dinamo Búkarest þar sem fyrir er fyrrverandi þjálfari Barcelona, Xavier Pascual.
  • Guðmundur Þórður Guðmundsson hefur fyrir nokkru smalað saman leikmönnum sínum hjá Fredericia HK til fyrstu æfinga. Í vikunni standa fyrir dyrum fyrstu æfingaleikir liðsins. Á miðvikudaginn er von á sænska liðinu Ystads IF í heimsókn í thansen ARENA í Fredericia. Tveimur dögum síðar mætir Rúnar Sigtryggsson til leiks með SC DHfK Leipzig gegn Fredericia HK. Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson fá þá m.a. að spreyta sig gegn Einari Þorsteini Ólafssyni landa sínum og leikmanni Fredericia HK.
  • Evrópumeistarinn í handknattleik og leikmaður SC Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson er 24 ára gamall í dag. Fleiri handknattleiksmenn eiga afmæli 30. júlí. Þar á meðal er Bergvin Þór Gíslason leikmaður Aftureldingar, hinn síungi rússneski hornamaður Timur Dibirov leikmaður RK Zagreb, Victor Bang markvörður IFK Kristianstad og Mikita Vailupau leikmaður ungversku meistaranna Telekom Veszprém.
    Gísla Þorgeiri, Bergvin Þór og öðrum afmælisbörnum dagsins eru hér með sendar hamingjuóskir með daginn.
  • Í dag eru 43 ár liðin síðan Austur-Þýskaland varð Ólympíumeistari í handknattleik karla. Austur-Þjóðverjar unnu landslið Sovétríkjanna, 23:22, eftir framlengingu í úrslitaleik í Moskvu. Rúmenía hlaut bronsverðlaun, lagði Ungverjaland, 20:18.
  • Landsliðsþjálfari Austur-Þýskalands var Paul Tiedemann. Meðal leikmanna liðsins var markvarðagoðsögnin Wieland Schmidt og Ingolf Weigert, faðir Bennet Wiegert þjálfara Evrópumeistara SC Magdeburg.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -