- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék ekki með Skövde á heimavelli í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Sävehof, 32:23, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Bjarni Ófeigur tognaði aðeins í nára á dögunum. „Ekkert alvarlega en menn vildu ekki taka neina áhættu í þessum efnum,“ sagði Bjarni Ófeigur í skilaboðum til handbolta.is í gærkvöld. Mjög þétt er leikið í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir og ekki óalgengt að lið leiki allt að þrjá leiki á viku.
- Skövde er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eftir 15 leiki og fjórum stigum á eftir Malmö sem situr í efsta sæti.
- Óskar Ólafsson náði sér ekki á strik í sóknarleiknum með Drammen í gærkvöld þegar liðið vann Halden á útivelli með 10 marka mun, 34:24, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Óskar skoraði ekki mark í fimm tilraunum. Hann átti tvær stoðsendingar. Hinn hálf íslenski Viktor Pedersen Nordberg var hinsvegar allt í öllu hjá Drammen að þessu sinni. Viktor skoraði sjö mörk í 10 skotum og átti eina stoðsendingu. Drammen er í þriðja sæti með 20 stig eftir 14 leiki. Arendal og Elverum eru tveimur stigum á undan. Elverum hefur aðeins leikið 12 leiki.
- Megn óánægja ríkir á meðal landsliðsþjálfara Frakklands og Þýskalands, og vafalaust hjá fleirum, með leikjaniðurröðun í milliriðlum á EM kvenna. Segja þeir liðum mismunað og hafa nokkuð til síns máls. Danir og Norðmenn fá alltaf einn frídag á milli leikja en leikjadagskrá Frakka og Þjóðverja er þannig að báðar þjóðir leika tvo leiki á tveimur dögum og fá síðan lengra frí áður en kemur að lokaumferðinni sem fer öll fram á sama degi.
- Handknattleikssamband Evrópu gaf út yfirlýsingu í gærkvöld þar sem sagði að leikjaniðurröðun mótsins hafi legið fyrir í eitt og hálft ár og þótt landsliðin hafi ekki tryggt sér sæti fyrr en á þessu ári þá hafi gefist nægur tími síðasta hálfa annað árið til að gera athugasemdir. Þess vegna væri nokkuð seint í rassinn gripið að kvarta nú, degi áður en milliriðlakeppnin hefst.
- Leikmenn norska og sænska landsliðsins fengu útivistarleyfi í gær. Þeim var ekið í skóg í nágrenni Kolding og leyft að hlaupa af sér hornin um stund. Leikmenn mega ekki yfirgefa hótel sitt meðan á mótinu stendur nema til leikja og æfinga. Önnur útivist er ekki heimiluð nema með sérstöku leyfi og þá mega leikmenn ekki hafa samband við neinn utan síns hóps.
- Auglýsing -