- Auglýsing -
- Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk, öll úr vítaköstum, þegar lið hans Stuttgart tapaði fyrir Flensburg, 32:30, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Alexander Petersson skoraði ekki mark fyrir Flensburg að þessu sinni. Flensburg hefur þriggja stiga forskot á toppnum eftir sigurinn. Kiel sem er í öðru sæti á leik til góða.
- Aron Rafn Eðvarðsson stóð í marki Bietigheim í um stundarfjórðung þegar liðið gerði jafntefli á útivelli á móti Hamm-Westfalen, 28:28, í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Aron Rafn varði 2 skot á þeim tíma. Bietigheim er í 5. sæti deildarinnar með 36 stig í 33 leikjum.
- Niclas Ekberg, hægri hornamaður Kiel, verður frá keppni í sex til átta vikur eftir að hafa meiðst á hné í viðureign Kiel og Magdeburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld. Ljóst er að hann tekur ekki þátt í fleiri leikjum með Kiel á keppnistímabilinu auk þess sem vafi leikur á að hann verði með sænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Japan en keppni hefst þar eftir rúmar sex vikur.
- Norski markvörðurinn Ole Erevik var í gær tekinn í heiðurshöll norska handknattleikssambandsins. Erevik var á annan áratug atvinnumaður í handknattleik og landsliðsmaður. Hann lagði skóna á hilluna fyrir fjórum árum og hefur síðan unnið við fjölmiðla í Noregi og fjallað eingöngu um handknattleik.
- Auglýsing -