- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson fékk loksins tækifæri til að leika heilan leik með GOG í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Hann stóð sig afar vel og varði 20 skot, var með 40% markvörslu í einhverjum ævintýralegasta sóknarleik sem fram hefur farið í dönsku úrvalsdeildinni. GOG vann þá Skive, 45:31. GOG heldur efsta sæti deildinnar örugglega. Liðið er með 37 stig eftir 19 leiki.
- Aalborg Håndbold er í öðru sæti með 31 stig eftir 20 leiki. Aalborg vann Fredericia, 29:23, á útivelli. Aron Pálmarsson var fjarverandi vegna meiðsla. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór á kostum í gærkvöld þegar lið hans IFK Skövde vann Hallby, 25:21, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Bjarni Ófeigur skoraði sjö mörk í átta skotum og fékk langhæsta einkunn af leikmönnum liðsins. Skövde er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig eftir 18 leiki og er þremur stigum á eftir Sävehof sem trónir á toppnum. Kristianstad er í þriðja sæti, stigi á eftir Skövde en á tvo leiki til góða.
- Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði tvö mörk þegar Gjerpen vann Nordstrand með átta marka mun, 32:24, í norsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Gjerpen komst með sigrinum á ný í efsta sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki. Annað Íslendingalið, Volda, hefur einnig 19 stig.
- Andrea Jacobsen skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu fyrir Kristianstadliðið þegar það tapaði fyrir stórliði Sävehof, 33:29, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Kristianstad er sem fyrr í 10. sæti af 12 liðum deildinnar.
- Birta Rún Grétarsdóttir lék ekki með Oppsal í gær þegar liðið tapaði illa fyrir Camillu Herrem og félögum í Sola, 28:13, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Leikið var í Stavangri. Oppsal er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar en Sola í þriðja sæti, næst á eftir Storhamar sem Axel Stefánsson þjálfar. Storhamar lagði Follo á heimavelli í gær, 33:21.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen fögnuðu fimmtánda sigri sínum í svissnesku A-deildinni í gærkvöld. Kadetten vann Wacker Thun, 30:26, á útivelli. Kadetten er með átta stig forskot á Pfadi Winterhur þegar 17 umferðir eru að baki í deildinni.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar í Ringköbing töpuðu fyrir Esbjerg með sex marka mun, 34:28, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Elín Jóna varði níu skot, 22%. Ringköbing er í næst neðsta sæti deildarinnar en Esbjerg er í efsta sæti auk þess sem liðið er öruggt um sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þar af leiðandi geta Elín Jóna og félagar vel við unað með frammistöðuna í leiknum í gær þótt alltaf sé leiðinlegt að tapa.
- Ein fremsta handknattleikskona heims, Svartfellingurinn Jovanka Radicevic, hefur samið við RK Krim Mercator í Slóveníu frá og með næsta keppnistímabili. Radicevic leikur nú með tyrkneska meistaraliðinu Kastamonu en kveður félagið eftir eins árs veru í vor.
- Auglýsing -