- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson var í marki Nantes í fyrri hálfleik í gær í sigurleik gegn Chartres, 37:27, í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Hann varði sex skot í fyrri hálfleik, 25%. Nantes er í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Montpellier og PSG.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk fyrir Elverum í 12 marka sigri liðsins á Kristiansand Topphåndball, 39:27, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Elverum er í öðru sæti deildarinnar með 26 stig eftir 17 leiki, er fjórum stigum á eftir Kolstad.
- Óskar Ólafsson skoraði fjögur mörk fyrir Drammen og Viktor Petersen Norberg níu mörk þegar liðið vann stórsigur á Bækkelaget á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Drammen hafði mikla yfirburði í leiknum og skoraði m.a. níu fyrstu mörkin. Drammen er í þriðja sæti með 23 stig.
- Egill Már Hjartarson var markahæstur hjá StÍF með átta mörk þegar liðið tapaði fyrir VÍF frá Vestmanna í Høllinni á Skála í gær í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik. Egill og samherjar voru þremur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 13:10, en misstu dampinn í síðari hálfleik, ekki síst í vörninni. StÍF er í fimmta sæti deildarinnar en liðsmenn VÍF eru efstir.
- Jakob Lárusson stýrði liði Kyndils til sigur á liði Stjørnan, 26:18, í KÍ-höllinni í Klaksvík í færeysku úrvalsdeildinni í kvennaflokki í gær. Kyndilsliðið heldur sínu striki í öðru sæti deildarinnar sjö stigum á eftir H71 sem er í efsta sæti.
- Garðar Benedikt Sigurjónsson tók nýverið við formennsku í handknattleiksdeild ÍBV. Garðar Benedikt er þrautreyndur í handknattleiknum, jafnt utan vallar sem innan. Hann lék á sínum tíma m.a. með Stjörnunni, Fram og Vængjum Júpíters áður en hann flutti við Vestmannaeyja. Garðar Benedikt átti sæti í handknattleiksráði ÍBV áður en hann settist í stól formanns.
- Auglýsing -