- Viktor Gísli Hallgrímsson varði 12 skot, 38,7%, þegar Nantes vann Toulouse, 34:24, í þriðju umferð frönsku efstu deildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Nantes er efst í deildinni með sex stig eftir þrjár umferð.
- Grétar Ari Guðjónsson og félagar í Sélestat töpuðu naumlega á heimavelli fyrir Cournon d’Auvergne, 31:30, í næst efstu deild franska handknattleiksins í gær. Grétar Ari varði fjögur skot. Sélestat hefur fjögur stig að loknum þremur umferðum.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði eitt mark og gaf fjórar stoðsendingar í sigurleik VfL Lübeck-Schwartau á EHV Aue, 27:26, í Aue í gærkvöld. Leikurinn var liður í 2. deild þýska handknattleiksins. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki EHV Aue og varði 10 skot, 28%.
- VfL Lübeck-Schwartau er komið upp í fjórða sæti 2. deildar með sex stig að loknum fjórum leikjum. Nýliðar EHV Aue hafa átt erfitt uppdráttar í upphafi deildarkeppninnar. Liðið rekur lestina ásamt Vinnhorst sem einnig er nýliði. Bæði lið eru stigalaus.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar í EH Aalborg unnu Søndermarkens IK, 39:21, á heimavelli í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. EH Aalborg er efst í deildinni. Því miður liggja ekki á lausu upplýsingar um frammistöðu landsliðsmarkvarðarins í leiknum.
- Róbert Sigurðarson mætti á ný til leiks með Drammen í gær þegar liðið mætti Haslum í fjórðu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Liðin skildu jöfn, 32:32, í hörkuleik í Drammen. Staðan var jöfn í hálfleik, 32:32. Drammen er efst í deildinni með sjö stig að loknum fjórum leikjum en þess bera að geta að leikurinn í gær var upphafsleikur fjórðu umferðar.
- Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Kristianstad HK í fimm marka sigri á útivelli á IF Hallby HK, 30:25, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Kristianstad HK hefur byrjað keppnistímabilið afar vel og er með sex stig að loknum þremur leikjum í efsta sæti.
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar í efstu deild austurríska handknattleiksins í karlaflokki, vann Voslauer, 35:28, á heimavelli í gær. Hard komst þar með í efsta sæti deildarinnar með sex stig að loknum fjórum leikjum. Aon Fivers, Linz og Handball Tirol eru taplaus skammt á eftir. Liðin þrjú að hafa lagt þrjár umferðir að baki. Þau eiga leiki í dag.
- Auglýsing -