- Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður og leikmaður MT Melsungen er í liði 1. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem tilkynnt var í gær. Elvar Örn fór á kostum með liði sínu í 10 marka sigri á Göppingen, 29:19. Hann skoraði átta mörk í níu skotum og átti sex stoðsendingar.
- Noregs– og Evrópumeistarar Vipers Kristiansand hófu leiktíðina í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld með stórsigri, 38:22, á heimavelli gegn Byåsen.
- Handknattleikskonan unga hjá ÍBV, Alexandra Ósk Viktorsdóttir, hefur fengið félagaskipti til Danmerkur. Ekki kemur fram á félagaskiptasíðu HSÍ til hvaða félags í Danmörku Alexandra Ósk fer. Hún er dóttir Hrafnhildar Óskar Skúladóttur, leikjahæstu og markahæstu landsliðskonu Íslands. Alexandra Ósk lék með U17 ára landsliði Íslands sem tók þátt í EM í Svartfjallalandi í fyrri hluta þessa mánaðar.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir Amo HK þegar liðið tapaði fyrir Tyresö Handboll, 36:34, í fyrsta leik liðanna í riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar í handknattleik á sunnudaginn. Næsti leikur Arnars Birkis og hans nýju samherja í bikarkeppninni verður í kvöld gegn IFK Skövde í Skövde.
- Bjarki Finnbogason var ekki á meðal leikmanna Anderstorps SK sem skoruðu mark í tapi liðsins fyrir HK Torslanda, 26:25, í riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar, 1. umferð. Anderstorps SK leikur við HK Malmö í annarri umferð keppninnar í kvöld. Bjarki gekk til liðs við Anderstorps í sumar.
- Barcelona vann sinn fyrsta bikar á leiktíðinni í gærkvöld þegar liðið vann BM Granollers, 49:27, í árlegum leik um Katalóníubikarinn í handknattleik karla.
- Auglýsing -