Mosfellska stórskyttan, Þorsteinn Leó Gunnarsson, var markahæstur hjá Porto í stórsigri liðsins á Póvoa, 36:21, á útivelli í kvöld í fjórðu umferð portúgölsku 1. deildarinnar í handknattleik. Þorsteinn Leó skoraði sjö mörk, öll með þrumufleygum svo markvörður Póvoa fékk ekki rönd við reist.
Þorsteinn Leó hefur þar með skorað 18 mörk í fjórum fyrstu leikjum sínum fyrir Porto. Liðið er efst í deildinni með 12 stig en þrjú stig eru gefin fyrir sigur í deildinni, tvö fyrir jafntefli og eitt fyrir tap, þ.e. fyrir að mæta til leiks. Sporting er í öðru sæti með 9 stig og á leik til góða á Porto-pilta. Benfica er þar á eftir með sjö stig.
Koma í næsta mánuði
Porto er væntanlegt hingað til lands um miðjan október til leiks við Val í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Stöðuna í mörgum deildum evrópska handknattleiksins er að finna hér.