- Auglýsing -
- Auglýsing -

Moustafa gaf HSÍ grænt ljós – að sjálfsögðu!

Hassan Moustafa forseti IHF t.v. ásamt Kare Geir Lio formanni norska handknattleikssambandsins á kappleik á HM í Stafangri. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Rétt fyrir viðureign Íslands og Frakklands á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í gær leit út fyrir að HSÍ fengi ekki leyfi til að afhenda Hildigunni Einarsdóttur blóm í tilefni þess að hún var að leika sinn 100. landsleik.

Athöfn sem þessi er ekki hluti af strangri dagskrá sem haldið er af festu fyrir hverja viðureign á stórmótum. Stjórnendur leiksins sögðu að ekki kæmi til greina að víkja frá dagskránni. Aðeins einn maður hefði vald til þess að breyta út af dagskrá, Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Það mætti svo sem reyna að heyra í honum og athuga hvort undanþága fengist.


Án þess að tvínóna var stormað á fund Moustafa sem var í keppnishöllinni í Stafangri og væntanlega nýkominn af fundi með Ásmundi Einari Daðasyni íþróttamálaráðherra. Svar Moustafa við fyrirspurn HSÍ um hvort hnika mætti frá dagskrá og heiðra Hildigunni var stutt og laggott; „Að sjálfsögðu!“

Hvort sem það var vegna heitstrengingar ráðherra um byggingu þjóðarhallar í Reykjavík sem forsetinn tók svo ljúflega í ósk HSÍ skal ósagt um látið. Reyndar var þessi blessaða hallarbygging líka alveg að bresta á fyrir 11 mánuðum þegar blásið var til blaðamannfundar hádegi eitt á hrollköldum janúardegi.

Dómararnir gleymdust

Hinsvegar gleymdist að láta dómara leiksins vita af dagskrárbreytingu Moustafa og því varð athöfnin heldur snubbóttari en efni stóðu til. Hildigunnur fékk engu að síður fallegan blómvönd og vandað úr frá HSÍ áður en hún gekk út á leikvöllinn og atti kappi við Ólympíumeistara Frakklands ásamt samherjum sínum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -