- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Moustafa og félagar sitja við sinn keip

Björgvin Páll Gústavsson markvörður landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Stjórnendum Alþjóða handknattleikssambandsins, með Hassan Moustafa í broddi fylkingar, verður ekki haggað með þær reglur sem settar hafa verið vegna heimsmeistaramótsins í handknattleik og snúa að covidprófum og einangrun smitaðra leikmanna meðan mótið stendur yfir. Segja þeir hlutverk sitt vera að skipulegga öruggt mót fyrir alla hagsmunaaðila.

Hassan Moustafa forseti IHF flytur ræðu áður en dregið var í riðli fyrir HM á síðasta sumri og þá með grímuna á hálsinum. Mynd/EPA

Eftir því sem Vísir.is segir frá þá barst Björgvin Páli Gústavssyni, landsliðsmarkverði, í dag svar við bréfi sem hann sendi IHF í gær. Í því mótmælir Björgvin Páll reglunum, ekki síst þeim sem snúa að covidprófum eftir riðlakeppnina og væntanlegri fimm daga sóttkví þeirra leikmanna sem greinast með smit covid.


Eins og e.t.v. var við að búast sitja stjórnendur IHF við sinn keip. Þeir segja hlutverk sitt að sjá til þess að leikmenn veikist ekki eða alltént smiti sem fæsta á meðan heimsmeistaramótið stendur yfir. HM hefst 11. janúar í Póllandi og daginn eftir í Svíþjóð.

Skella við skollaeyrum

Skollaeyrum er skellt við mótmælum og að hugsanleg frelsiskerðing leikmanna sé andstæð Mannréttindasáttmála Evrópu sem veiti íþróttafólki sem og öðrum vernd fyrir frelsisskerðingu. Í engu virðist litið til þess að stórmót í mörgum íþróttagreinum hafa farið fram víða um heim síðustu mánuði án jafn íþyngjandi covidreglna.

Mikilvægast að varðveita heilsu

„Að varðveita heilsu leikmannanna er afar mikilvægt fyrir IHF,“ segir í þýðingu Vísis.is á svari IHF. „Þar sem einkennalausir smitberar veirunnar geta einnig smitað aðra leikmenn og hagsmunaaðila, eru fyrirhuguð próf áhrifaríkasta ráðstöfunin til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar og halda öllum hagsmunaaðilum öruggum og heilbrigðum.“

Mjög smitandi XBB.1.5 afbrigði

Síðar í bréfinu segir í þýðingu Vísis: „Við gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd að ekki er víst að allir hagsmunaaðilar séu hlynntir fyrirhuguðum aðgerðum. Hins vegar fékk IHF upplýsingar frá nokkrum löndum þar sem haldin voru vináttumót þar sem nokkur tilvik hafa verið tilkynnt. Ennfremur sýnir útbreiðsla hins nýja og mjög smitandi XBB.1.5 afbrigði veirunnar að enn þarf að taka heimsfaraldurinn alvarlega.“


„Leiðbeiningar í skipulagslöndunum gætu vikið frá læknisvarnaáætluninni, hins vegar er það á ábyrgð IHF að skipuleggja öruggt IHF heimsmeistaramót karla fyrir alla hagsmunaaðila og við reynum að gera það með því að beita aðgerðum sem reynast árangursríkar.“ segir í yfirlýsingu sambandsins í þýðingu Vísis sem nánar má lesa hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -