Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, er bjartsýnn og vonar að áhorfendur sópist á leiki heimsmeistaramóts karla sem fram fer í Egyptalandi í janúar. „Á HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi voru áhorfendur ein milljón. Ég vona að eitthvað svipað verði upp á teningnum í Egyptalandi,“ segir forsetinn, sem er egypskur, í samtali við Sportschau í Þýskalandi.
Hann segir unnið dag og nótt við undirbúning í heimalandi sínu. Sama eigi við sóttvarnanefnd IHF. Moustafa segist hafa skilning á áhyggjum handknattleiksmanna vegn ástandsins í heiminum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. „Ég er viss um að HM í Egyptalandi verði frábært mót. Mikið hefur verið lagt í sölurnar og meðal annars byggðar nýjar keppnishallir þar sem engu hefur verið til sparað,” segir Moustafa og ljóst er að hann stefnir ótrauður á að mótið farið fram. Til stendur að flautað verði til fyrsta leiks 13. janúar nk.
Ekki er þó víst að Moustafa verði að ósk sinni um fjölda áhorfenda á leiki mótsins þar sem enn hefur ekki verið ákveðið hversu margir mega sækja kappleikina. Talað hefur verið um að selja í einn þriðja sætanna og ekki veita 12 ára og yngri aðgang.
„Þetta skýrist þegar nær dregur mótinu en ég held að það sé betra að selja til dæmis í helming sætanna í keppnishöllinum. Það gengur alls ekki að leika fyrir tómum keppnishöllum,“ segir hinn 76 ára gamli forseti IHF, Hassan Moustafa.