- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mun betri staða en fyrir ári – vill að þjálfunin verði einstaklingsmiðaðri

- Auglýsing -

Dr. Þorvaldur Skúli Pálsson sjúkraþjálfari hefur á síðustu árum tekið þátt í verkefnum með þeim hópi sem nú skipar 20 ára landslið kvenna sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem lýkur í dag. Hann segist ekki vera frá því að almennt ástand leikmannahópsins í dag við mótslok, eftir langa törn, vera gott og betra en til dæmis fyrir ári síðan, eftir Evrópumótið í Rúmeníu. Vissulega séu leikmenn lemstraðir en þær hafi hugsað vel um sig og séu eflaust á svipuðum stað og hin liðin sjö sem ljúka keppni á mótinu í dag.

Þorvaldur Skúli býr og starfar í Álaborg og hefur gert um langt árabil. Hann fylgist þar af leiðandi ekki náið með leikmönnum heima á Íslandi.

„Við sáum það á Evrópmótinu í fyrra að margar voru að kljást við einkenni frá neðri útlimum, aumar í hnjám, kálfum, lærum, eitthvað sem ekki tengdist beint meiðslum heldur var til marks um mikið álag yfir langan tíma,“ segir Þorvaldur þegar hann settist niður og ræddi við handbolta.is í Skopje í gær.

Huga þarf að öllum þáttum

„Við ræddum þetta saman þegar við fórum yfir mótið. Þar kom ég á framfæri mínum skoðunum að það væri nokkrir litlir hlutir sem mætti huga betur að. Til þess að koma í veg fyrir svona atriði er hægt að fyrirbyggja margt með þjálfun, ekki síst styrktarþjálfun.

Hinsvegar á það ekki endilega við fyrir þessa einstaklinga því æfingamagnið sem þær eru undir er mikið. Þá fórum við leiða hugann að öðrum atriðum eins og hvíld og næringu, ekki endilega bara að borða hollt heldur einnig hvenær við erum að borða til að næringin nýtist á æfingunni, eins varðandi hvíld og svefn,“ segir Þorvaldur sem vonast til að sumt af því nesti sem stúlkurnar fengu frá honum fyrir ári hafi skilað sér í betra ástandi ári síðar.

Aldrei haft minna að gera

Þorvaldur Skúli segir ljóst að stelpurnar hafi lagt gríðarlega mikið á sig undanfarið ár. Hann sjái þess merki sem m.a. sýni sig í að margt af því sem var að plaga þær í fyrra er ekki fyrir hendi nú. „Ég held að það sé ekki vegna þess að stelpurnar eru feimnar við mig og þora ekki að koma en í þeim verkefnum sem ég hef verið með í þá hef ég aldrei haft minna að gera en í þessari ferð. Að sjálfsögðu er alltaf eitt og eitt smotteri og eitthvað bæst í eftir því sem á ferðina hefur liðið, það er eðlilegt. Engar þeirra eru með svipuð einkenni og var til dæmis í síðasta verkefni. Hvort hægt sé að þakka mér það skal ég ekki um segja en það er ljóst að margar þeirra hafa tekið til sín hluta af því sem við ræddum um og fórum yfir í fyrra,“ segir Þorvaldur Skúli.

Einstaklingsbundnar æfingar

Þorvaldur Skúli segist hafa mikinn áhuga fyrir að sjúkraþjálfarar verði almennt teknir inn í undirbúning og þjálfun fyrir og á meðan keppnistímabil standa yfir. Umgjörð í kringum þjálfun hjá félagsliðum á Íslandi sé mjög gott, eftir því sem hann kemst næst. Hinsvegar vill hann að styrktaræfingar verði meira einstaklingsbundnar en nú er gert og þar geti sjúkraþjálfarar komið inn með sína þekkingu. Nefnir Þorvaldur Skúli sem dæmi að línumaður þyrfti í mörgun tilfellum annarskonar þjálfunarprógramm en hornamaður. Oft sé það svo að allir fara í gegnum sömu æfingarnar.

Inn á fleiri þætti í þjálfun handknattleiksfólks kemur Þorvaldur Skúli inn á í viðtalinu. Óhætt er að mæla með hlustun því komið er inn á marga þætti sem bæði lærðir og leikir geta svo sannarlega dregið lærdóm af.

Viðtalið við Þorvald Skúla er mjög ítarlegt og er að finna efst í þessari grein.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -