Mikið var um dýrðir í Kaplakrika í gærkvöld þegar einn fremsti handknattleiksmaður heims síðustu 15 ár, Aron Pálmarsson, lék sinn kveðjuleik. Uppeldisfélag hans, FH, stóð fyrir leiknum og frábærri skemmtidagskrá og var fullt út að dyrum í Kaplakrika eins og nærri má geta. Ungverska meistaraliðið, One Veszprém, sem Aron lék með um árabil mætti ásamt þjálfara sínum Xavier Pascual sem var þjálfari Arons hjá Barcelona 2017 til 2021 og aftur hjá Veszprém á síðustu leiktíð.
Aron lék með báðum liðum í leiknum í gær sem Veszprém vann, 32:22. Einni mínútu og 53 sekúndum fyrir leikslok var gert hlé á leiknum þegar Aroni var skipt af leikvelli í síðasta sinn. Risu áhorfendur úr sætum og hylltu Aron að leiðarlokum. Var um tilfinningaþrungna stund að ræða.
Jói Long var að sjálfsögðu í Kaplakrika í gærkvöld og tók þær frábæru myndir sem birtar eru hér að neðan.




















