Sérsveitin, stuðningsmannalið íslensku landsliðanna í handknattleik, er fyrir löngu orðin ómissandi hluti af þátttöku landsliðanna. Sérsveitin hélt upp taumlausri stemningu í gær á meðal annað hundrað Íslendinga sem eru í Innsbruck í Austurríki til þess að styðja við bakið á landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótinu.
Alltaf er jákvæðni og gleði í kringum Sérsveitina. Hún smitar út frá sér til annarra áhorfenda. Hvernig sem staðan er á leikvellinum hverju sinni þá slær Sérsveitin ekki slöku við.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari var með vakandi auga á Sérsveitinni og öðrum áhorfendum á leik Íslands og Hollands í Ólympíuhöllinni í gær. Hann eins og Sérsveitin verður mættur á sinn stað annað kvöld, sunnudag, þegar íslenska landsliðið mætir Úkraínu í Ólympíuhöllinni klukkan 19.30. Handbolti.is verður einnig þar.
Hér fyrir neðan eru myndir Hafliða af Sérsveitinni og áhorfendum á leiknum við Hollendinga. (Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri).