Markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson var stjarnan sem skærast skein í Zagreb Arena í gærkvöld þegar íslenska landsliðið í handknattleik vann Slóveníu, 23:18, og tryggði sér sigur í G-riðli heimsmeistaramótsins og um leið sæti í milliriðli mótsins með fullu húsi stiga.
Hinn 24 ára gamli hægláti og yfirlætislausi markvörður fór hamförum svo vart hefur annað sést hjá íslenskum markverði í svo stórum og mikilvægum leik á síðari tímum. Hann varði 17 skot, þar af eitt vítakasti, og lauk leik með nærri 50% hlutfallsmarkvörslu. Slóvensku sóknarmennirnir stóðu ráðþrota á tíðum gegn Viktori Gísla og kalla þeir margir samt ekki allt ömmu sína á handknattleiksvellinum.
Hvað eftir annað ómaði söngur stuðningsmanna íslenska landsliðsins svo undir tók í Zagreb Arena; Viktor Gísli, Viktor Gísli!
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari hafði augu sín á Viktori Gísla eins og öðrum á leikvellinum í gærkvöld. Hér er hluti þeirra mynda sem Hafliði náði af stjörnu kvöldsins.