Hafsteinn Óli Ramos Rocha leikmaður Gróttu lék sinn fyrsta landsleik á stórmóti í gær með landsliði Grænhöfðaeyja þegar liðið mætti íslenska landsliðinu og tapaði með 13 marka mun, 34:21, í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í handknattleik. Hafsteinn Óli fékk að spreyta sig undir lok viðureignarinnar.
„Þetta er skemmtilegt tækifæri sem maður á bara að njóta,“ sagði Hafsteinn Óli í dag þegar handbolti.is rakst á hann við hótelið sem landsliðin búa á í Zagreb að landsliði Króatíu undanskildu. Næsti leikur landsliðs Grænhöfðaeyja verður gegn Slóvenum annað kvöld.
Hafsteinn Óli er uppalinn á Íslandi og lék með yngri landsliðum Íslands auk þess að vera leikmaður hjá Fjölni, Aftureldingu, HK og nú síðast Gróttu. Faðir hans er frá Grænhöfðaeyjum en móður Hafsteins er íslensk. Hafsteinn Óli fékk grænhöfðskt vegabréf síðasta sumar og varð þar með gjaldgengur með landsliði föðurlandsins sem nú tekur þátt í HM í þriðja sinn í röð.