Kvennalið ÍR í handknattleik lék í gær í fyrsta sinn í efstu deild um langt árabil. Mikið var því um dýrðir í Skógarseli þegar ÍR tók á móti Aftureldingu í Olísdeild kvenna. Bæði lið unnu sig upp í deildina í vor og því um sannkallaðan nýliðaslag að ræða.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrir örfáum árum þegar til stóð að leggja meistaraflokk kvenna niður hjá ÍR vegna bágrar fjárhagsstöðu handknattleiksdeildar. Þá gekk maður undir manns hönd til að tryggja áframhaldandi keppnislið í kvennaflokki. Það tókst vel. ÍR lagði Selfoss í umspili um sæti í Olísdeildinni í vor undir stjórn Sólveigar Láru Kjærnested þjálfara.
Fjöldi áhorfenda kom í Skógarselið í gær sem gerði frábæra umgjörð í kringum leikinn ennþá betri. Ekki spillti fyrir ánægju ÍR-inga að vinna leikinn á sannfærandi hátt.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari og eigandi fotbolti.net hljóp enn einu sinni undir bagga og gerði handbolti.is þann greiða að mæta til leiks í Skógarsel með myndavél og fanga stemninguna utan vallar sem innan á gleðidegi ÍR-inga. Hér fyrir neðan er syrpa með hluta þeirra mynda sem voru í möppunni sem handbolti.is fékk frá Hafliða sem hér með er þakkað kærlega fyrir.
Smellið á myndirnar til þess að sjá þær í hærri upplausn.