- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndskeið: Leyfðu Spánverjar Þjóðverjum að skora?

Jose Ignacio Prades Pons þjálfari spænska landsliðsins í handknattleik kvenna. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Óánægja ríkir með framgöngu spænska landsliðsins á síðustu mínútu leiks Spánar og Þýskalands í riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna í gærkvöld. Svo virðist sem leikmenn spænska landsliðsins hafi viljandi kastað langt yfir þýska markið af löngu færi eftir að hafa unnið boltann. Í kjölfarið hófu Þjóðverjar sókn og skoruðu 21. mark sitt sem dugði til þess að þeir fóru áfram í milliriðil á kostnað Pólverja. Varnarmaður spænska landsliðsins virðist ekki gera tilraun til þess að hindra Xenia Smits leiðina að markinu og skora síðasta markið.


Það sem meira er þá virðist leikmaður og jafnvel leikmenn spænska landsliðsins fagna þegar Þjóðverjar skora 21. markið.


Myndskeið af atvikinu:

Hefði leikurinn endað 23:20 fyrir Spán hefði pólska landsliðið farið áfram í millirðil ásamt Spáni en tekið með sér tvö stig eftir sigur á Spánverjum í riðlakeppninni. Spánn hefði haldið áfram án stiga og Þjóðverjar farið heim vegna óhagstæðrar markatölu í innbyrðis leikjum liðanna þriggja.

Hagur Spánverja

Tveggja marka tap nægði hinsvegar Þjóðverjum til þess að standa aðeins betur að vígi en Pólverjum þegar upp var staðið.
Það var hagur Spánverja að „taka“ Þjóðverja með á kostnað Pólverja. Að hefja milliriðlakeppni með tvö stig er jú betra en að vera án stiga.


Pólverjar töpuðu fyrir Svartfellingum í gær í leik sem var löngu lokið þegar Spánverjar og Þjóðverjar mættust.

Augljósir gallar

Þykir dæmið í gærkvöld sýna í enn eitt skiptið fram á galla á leikjaniðurröðun Evrópumóta í handknattleik og nauðsyn þess að þegar um tvo leiki er að ræða, þar sem úrslit skipta svo miklu máli sem raun ber vitni, að þeir fari fram á sama tíma.

Skemmst að minnast

Svipuð dæmi hafa komið upp öðru hverju í gegnum tíðina. Íslendingar minnast e.t.v. þess sem átti sér stað í viðureign Slóvena og Íslendinga á EM karla fyrir áratug. Þá slökuðu Slóvenar einstaklega mikið á klónni á síðustu mínútu og létu nægja að vinna íslenska landsliðið með tveggja marka mun. Ef þeir hefðu unnið með meiri mun hefðu þeir farið áfram í milliriðila án stiga en Norðmenn tekið með sér tvö stig. Með því að vinna Ísland með tveggja marka mun voru Slóvenar með bestu markatöluna af liðunum þremur og fóru þar með áfram með tvö stig eftir sigurinn á Íslendingum. Norðmenn sátu eftir með sárt ennið og fóru heim en íslenska landsliðið fór áfram í milliriðil með Slóvenum vegna sigurs á Noregi og hagstæðari markatölu en frændurnir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -