Systkinin úr Vestmannaeyjum, Sandra Erlingsdóttir og Elmar Erlingsson, hafa svo sannarlega látið til sín taka á handknattleiksvellinum á síðustu árum. Skiljanlega hefur frammistaða þeirra vakið athygli. Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, tók saman myndskeið með nokkrum mörkum sem þau hafa skorað og hversu lík þau eru um margt, „Like sister, like brother, – the Erling gene“ segir IHF með myndskeiðinu sem er hér fyrir neðan. Já, margt er líkt með skyldum.
Sandra var markahæsti í íslenska landsliðinu á HM 2023 og Elmar varð einn markahæsti leikmaður HM 21 árs landsliða á dögunum.
Elmar og Sandra eru börn hjónanna Erlings Richardssonar og Vigdísar Sigurðardóttur sem bæði léku með íslenska landsliðinu á sínum tíma.
Sandra flutti heim til Vestmannaeyja eftir fimm ár ytra í atvinnumennsku í Danmörku og Þýskalandi. Elmar flutti frá Eyjum í fyrra og leikur nú með Nordhorn-Lingen í Þýskalandi. Yngri bróðir þeirra, Andri, leikur með ÍBV og á sæti í U19 ára landsliðinu sem tekur þátt í HM í Egyptalandi í næsta mánuði.