- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndskeið: Orri Freyr meistari í Portúgal

Orri Freyr Þorkelsson varð í kvöld meistari með Sporting Lissabon. Mynd/Sporting
- Auglýsing -

Landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson varð í kvöld portúgalskur meistari í handknattleik karla með liði sínu Sporting Lissabon. Sporting vann Porto, 35:33, í síðasta leik úrslitakeppninnar um meistaratitilinn í Lissabon. Orri Freyr er fyrsti íslenski handknattleikskarlinn sem verður landsmeistari í Portúgal.

Fyrr í vor varð Sporting deildarmeistari og getur orðið bikarmeistari um næstu helgi þegar Sporting og Porto leiða á ný saman kappa sína í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Sporting hefur aðeins tapað einum leik á keppnistímabilinu í Portúgal í deild og bikar.

Orri Freyr hefur þar með orðið landsmeistari í Noregi og í Portúgal. Fyrir tveimur árum vann hann bæði deildar- og bikarkeppni með Elverum.

Orri Freyr, sem gekk til liðs við Sporting á síðasta sumri, skoraði þrjú mörk í sigurleiknum góða í dag. Sporting var fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13, og tókst að standast áhlaup Porto í síðari hálfleik. Porto varð meistari á síðasta ári.

Stiven Tobar Valencia og félagar í Benfica höfnuðu í þriðja sæti deildarinnar.

Uppfærð frétt: Eins og endranær ber varlega að treysta á gloppótt minni. Orri Freyr er ekki fyrsti Íslendingurinn sem verður portúgalskur meistari í handknattleik eins og fullyrt var í fyrstu útgáfu fréttarinnar. Handbolti.is fékk ábendingu um að Bryn­hild­ur Sól Eddu­dótt­ir hafi unnið portú­galsk­a meistaratitilinn í hand­knatt­leik með Ala­vari­um Love Til­es vorið 2015. Var m.a. vísað til fréttar á mbl.is sem neðanritaður er e.t.v. ekki ókunnur.
Af þeim sökum hefur fréttin verið færð til betri vegar. Rétt skal vera rétt - íben.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -