Nýliðar Volda, með fimm Íslendinga innanborðs, unnu sinn fyrsta leik í dag þegar flautað var til leiks norsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki. Volda, sem kom upp úr 1. deild í vor, hafði betur gegn öðru Íslendingatengdu liði, Fredrikstad Bkl, 23:21, á heimavelli. Akureyringurinn Rakel Sara Elvarsdóttir innsiglaði sigurinn með 23. markinu rétt áður en leiktíminn var úti. Sigurmarkið má sjá á myndskeiði hér fyrir neðan.
Volda sneri leiknum við í síðari hálfleik eftir að hafa verið þremur mörkum undir eftir 30 mínútna leik, 12:9.
Eins og gefur að skilja var kátt í keppnishöllinni glæsilegu í Volda þegar flautað var til leiksloka.
Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir Volda og var markahæsti leikmaður liðsins. Rakel Sara skoraði þrjú mörk. Katrín Tinna Jensdóttir lét til sín taka í vörninni og var m.a. einu sinni vísað af leikvelli. Hún skoraði ekki mark að þessu sinni.
Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda og hefur sér til halds og trausts Hilmar Guðlaugsson. Leikurinn í dag var sá fyrsti í sögu Volda í norsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki.
Elías Már Halldórsson er þjálfari Fredrikstad Bkl. Alexandra Líf Arnarsdóttir sem gekk til liðs við Fredrikstad í sumar var ekki í leikmannhópnum í dag.
Axel Stefánsson þjálfari Storhamar fagnaði sigri í heimsókn liðsins til Byåsen, 29:26.