Landsliðsmaðurinn í handknattleik, Sigvaldi Björn Guðjónsson, er í liði fimmtu umferðar Meistaradeildar karla í handknattleik. Sigvaldi Björn fór hamförum með Kolstad í sigurleik á þýska meistaraliðinu THW Kiel á síðasta fimmtudag. Hann skoraði m.a. 10 mörk í 13 skotum og var markahæstur leikmanna norska meistaraliðsins í sigri, 34:30, að viðstöddum 7.120 áhorfendum í Trondheim Spektrum.
Skal engan undra þótt forráðamenn THW Kiel hafi í haust rennt hýru auga til hornamannsins slynga þótt síðar hafi málsmetandi menn borið þær fregnir til baka og sagt þær vera bábilju.
Sigvaldi Björn er annar íslenski handknattleiksmaðurinn í röð sem er í liði umferðarinnar í Meistaradeild karla í handknattleik. Bjarki Már Elísson landsliðsmaður og liðsmaður ungverska meistaraliðsins Telekom Veszprém var í liði fjórðu umferðar eins og handbolti.is sagði m.a. frá.
Myndskeið: Bjarki Már á meðal þeirra bestu
Hér fyrir neðan er myndskeið með tilþrifum þeirra leikmanna sem eru í liði 5. umferðar Meistaradeildar Evrópu, þar á meðal tvö glæsileg mörk Sigvalda Björns sem verður næst í eldlínunni í Meistaradeildinni á miðvikudaginn þegar Kolstad sækir danska liðið Aalborg Håndbold heim.
𝗕𝗘𝗦𝗧 𝟳 🌟 players of Round 5. A round with many tight matches, leaving us with a very strong team! #ehfcl #CLM
— EHF Champions League (@ehfcl) October 21, 2023
Best defender ➡️Nedim Remili 💥 #DareToRise ✨ pic.twitter.com/elx6zoRTWB