- Auglýsing -
Sigvaldi Björn Guðjónsson tryggði Kolstad í gær dramatískan sigur á Drammen úr vítakasti eftir að leiktíminn var á enda, 30:29, í viðureign liðanna sem fram fór í Drammen.
Heimamenn voru með boltann þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Reynd var línusending sem rataði ekki í réttar hendur. Liðsmaður Kolstad komst í boltann og reyndi markskot yfir endilangan leikvöllinn. Hann var hindraður og vítakast dæmt sem Sigvaldi Björn skoraði úr.
Aðdragandinn og sigurmark Sigvalda má sjá á myndskeiðinu hér fyrir neðan.
Sigvaldi Björn fór á kostum í leiknum og skoraði þriðjung marka Kolstadliðsins, 10, þar af þrjú úr vítakasti. Janus Daði Smárason kom lítið við sögu að þessu sinni.
Viktor Petersen Norberg skoraði fimm mörk og gaf fjórar stoðsendingar og Óskar Ólafsson skoraði þrisvar sinnum og átti eina stoðsendingu.
Drammenliðið var þremur mörkum undir, 27:24, þegar skammt var til leiksloka en tókst að vinna upp forskotið og jafna metin, 29:29. Eins og sést fyrir ofan átti Drammenliðið þess kost að tryggja sér sigurinn, alltént annað stigið. Allt kom fyrir ekki.
Kolstad er þar með áfram efst og taplaust í deildinni.
Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -