Hálfu ári áður en flautað verður til leiks á Evrópumóti karla í handknattleik í Þýskalandi hafa ríflega 45% aðgöngumiða á leiki mótsins verðið seldir. Eftir því sem næst verður komist eru aðeins um 2.000 miðar eftir óseldir af 50.000 á upphafsleik mótsins í MERKUR Spiel-Arena knattspyrnuvellinum í Düsseldorf. Stefnir í að áhorfsmet verði sett á handboltaleik eins og lagt var upp með. Þýskaland og Sviss mætast í upphafsleiknum 10. janúar auk viðureignar Frakklands og Norður Makedóníu.
Mikill áhugi hefur einnig verið fyrir síðustu keppnishelgi mótsins sem leikin verður í Lanxess Arena í Köln. Það gerist þrátt fyrir að miðaverð sé mjög hátt, eða allt að 450 evrur.
Einnig hefur verið rífandi góð sala á alla leikdaga þýska landsliðsins sem framan af mun leika í Mercedes Benz Arena í Berlín ef frá er talinn áðurnefnd viðureign við Sviss í upphafi keppninnar. Allir miðar sem settir hafa verið í sölu í Mercedes Benz Arena hafa selst og þegar er uppselt á einhverja leikdaga þýska landsliðsins. Þá hefur sala miða á væntanlegum leikdögum þýska landsliðsins í milliriðlakeppninni í Köln verið mjög góð.
Færeyingar og Íslendingar áhugasamir
Auk mikils áhuga heimamanna þá hafa um 3.000 miðar verið seldir til Færeyinga, eftir því sem handbolti.is fregnaði í heimsókn sinni til Þýskalands á dögunum.
Íslendingar ætla ennfremur að fjölmenna sem aldrei fyrr á EM. Um 4.000 miðar hafa verið seldir til Íslendinga á leiki landsliðsins sem fram fara í München. Ef Íslendingar ætla sér að kaupa miða á milliriðlakeppnina í Köln er ekki úr vegi að velta því alvarlega fyrir sér og huga að miðakaupum sem fyrst áður en Þjóðverjar ryksuga upp miðana.
Í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, segir að stefnt sé á að hefja sölu á næsta skammti aðgöngumiða 13. september. Ljóst sé þó að ekki verði í boði miðar á nokkra leiki sem þegar sé uppselt á.