ÍBV tókst með naumindum að vinna fyrsta leik sinn á leiktíðinni í Olísdeild karla á heimavelli í kvöld, 30:29, þegar HK-ingar komu í heimsókn. Leikmenn HK áttu möguleika á að jafna metin á síðustu sekúndum en ruðningur var dæmur á Hauk Inga Hauksson þegar átta sekúndur voru til leiksloka. Áður hafði Rökkvi Pacheco Steinunnarson markvörður ÍR varið skot úr opnu færi frá Eyjamanni.
HK gerði vel í að hleypa spennu í viðureignina á síðustu mínútum eftir að hafa verið sex mörkum undir, 26:20, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Byr virtist í seglum Eyjamanna.
Skjótt skipast veður í lofti. HK-ingar færðu vörn sína framar og slógu vopnin úr höndum leikmanna ÍBV. Síðan söxuðu þeir jafnt og þétt á forskot ÍBV og jöfnuðu metin, 28:28, þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Lokakaflinn var æsilega spennandi en ÍBV tókst að halda stigunum tveimur.
Mörk ÍBV: Dagur Arnarsson 7/5, Elís Þór Aðalsteinsson 6, Ívar Bessi Viðarsson 4, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Sveinn Jose Rivera 2, Daníel Þór Ingason 2, Anton Frans Sigurðsson 2, Andri Erlingsson 2, Jakob Ingi Stefánsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 11/1, 33,3% – Morgan Goði Garner kom við sögu í leiknum en af einhverjum ástæðum er hann ekki skráður með varið skot í tölfræði HBStataz.
Mörk HK: Haukur Ingi Hauksson 8, Andri Þór Helgason 6/3, Ágúst Guðmundsson 6, Leó Snær Pétursson 3, Sigurður Jefferson Guarino 3, Hjörtur Ingi Halldórsson 2, Örn Alexandersson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 5, 19,2% – Rökkvi Pacheco Steinunnarson 5, 35,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.