Frakkinn Franck Maurice var í morgun rekinn úr starfi þjálfara egypska liðsins Zamalek, aðeins þremur mánuðum eftir að hann var ráðinn. Forráðamönnum félagsins mislíkaði svo spilamennska liðsins gegn Barcelona á heimsmeistaramóti félagsliða í gær að þeir sáu enga aðra leið færa en að segja Maurice upp störfum eftir að hafa drukkið morgunteið.
Maurice, sem þjálfaði um árabil hjá Nîmes í Frakklandi, sagði í samtali við franska íþróttablaðiðið L’Equipe í síðustu viku að hann nyti starfsins í Kaíró og hlakkaði til leiktíðarinnar enda væru leikmenn hans fullir eldmóði fyrir komandi átök.
Barcelona vann leikinn við Zamalek í gær, 47:25. Í fyrstu umferð mótsins vann Zamalek brasilísku meistarana Taubate, 26:24.
Zamalek hefur ásamt Al Ahly verið með öflugasta handknattleikslið Egyptlands og m.a. unnið meistaratitilinn nítján sinnum og sjö sinnum fagnað Afríkumeistaratitli félagsliða.
Ekki liggur fyrir hver stýrir Zamalek í leik við Sharjah SC um fimmta sæti á HM félagsliða á morgun.