Neistin, liðið sem Arnar Gunnarsson þjálfar, tapaði sínu fyrsta stigi í dag þegar það gerði jafntefli við VÍF frá Vestmanna, 35:35, í hörkuleik í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn. Teitur Magnússon jafnaði metin fyrir Neistan þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka en liðið var þremur mörkum undir þegar skammt var til leiksloka. Úrslitum leiksins var mótmælt og telja VÍF-menn meinbug hafi verið á framkvæmd leiksins.
Áður en Teitur skoraði jöfnunarmarkið hafði markvörður Neistans, Rókur Holm Joensen, varið tvisvar í röð frá leikmönnum VÍF úr opnum færum.
Neistin var marki undir í hálfleik, 16:15. Liðið hefur nú 9 stig að loknum fimm leikjum í efsta sæti úrvalsdeildar.
Talsverð umræða hefur verið eftir leikinn um að mistök hafi verið gerð á ritaraborðinu meðan á viðureigninni stóð og einu marki hafi verið ofaukið á lið Neistans. M.a. lagði forráðamaður VÍF fram mótmæli við framkvæmd leiksins á leikskýrslu. Dómararnir rituðu hinsvegar undir skýrsluna og staðfestu þar með úrslitin. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort færeyska handknattleikssambandið bregðist við mótmælum VÍF-liðsins.
H71 er í öðru sæti eftir að hafa unnið Hörð Fannar Sigþórsson og samherja í KÍF í Kollafirði, 24:22. Hörður Fannar skoraði fimm mörk. KÍF er í fjórða sæti deildarinnar, stigi á eftir VÍF.