Hart er í ári hjá norska úrvalsdeildarliðinu Kolstad svo að nú vofir yfir töluverður niðurskurður í öllum kostnaði. Leiðir það m.a. til þess að leikmenn verða að taka á sig lækkun launa, ekki síst þeir sem þyngstir eru á fóðrum. Frá þessu segir á vef TV2 í Noregi í dag.
Í frétt TV2 eru nefndir til sögunnar þegar kemur að launalækkun Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði, Gøran Johannessen, Magnus Gullerud, Simen Lyse og sænski landsliðsmarkvörðuinn Andreas Palicka. Sigvaldi Björn er samningsbundinn Kolstad til ársins 2030.
Einnig leika Íslendingarnir Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson með Kolstad.
Önnur launalækkun
Þetta er í annað sinn á rúmum tveimur árum sem niðurskurðarhnífurinn er á lofti hjá Kolstad. Sumarið 2023 var þess farið á leit við leikmenn að þeir tækju á sig allt að þriðjungs lækkun launa. Voru ekki allir á þeim buxunum sem varð til þess að leikmenn réru á ný mið, þar á meðal Janus Daði Smárason.
Jostein Sivertsen stjórnandi hjá Kolstad segir að nú sé nauðsynlegt að rétta af stefnuna og koma liðinu inn á sporið en þó þannig að það verði samkeppnishæft utan vallar sem innan.
Markið var sett hátt
Markið var sett hátt þegar ákveðið var að blása lífi í Kolstad fyrir fjórum árum. Lið félagsins var þá miðlungsgott norskt úrvalsdeildarlið. Stefnan var tekin á að búa til eitt öflugasta handknattleikslið Evrópu sem gæti hugsanlega orðið kyndilberi handknattleiks karla á Norðurlöndunum og gæti keppt um sigurlaun Meistaradeildar Evrópu. Þáverandi landsliðsþjálfari, Christian Berge, var fenginn til starfa og samið var við helstu kempur norsks handknattleiks s.s. Sander Sagosen, Magnus Abelvik Rød og Torbjørn Bergerud. Við bættust fleiri Norðmenn auk íslensku landsliðsmannanna Janusar Daða Smárasonar og Sigvalda Björns Guðjónssonar. Smjör virtist drjúpa af hverju strái í Þrándheimi og boginn hátt spenntur.
Ekki nægur áhugi
Kolstad vann þrefalt vorið 2023, þ.e. deildina, bikarkeppnina og úrslitakeppnina í Noregi og aftur 2024 og tvöfalt á síðustu leiktíð. Tekjurnar hafa ekki verið í samræmi við árangurinn og áhuginn ekki verið nægur. Skammt er síðan að Handknattleikssamband Evrópu veitti Kolstad undanþágu til að heimaleikir liðsins í Meistaradeildinni færi fram í minni keppnishöll til að draga úr kostnaði.
Babb kom í bátinn eins og áður sagði sumarið 2023 og síðan hafa nokkrar skrautfjaðrir tínst af liðinu s.s. Sagosen, Rød, Bererud og Janus Daði. Þótt liðið hafi enn á að skipa öflugum leikmönnum er það ekki alveg eins öflugt í dag og því var stefnt fyrir fjórum árum.



