Grótta vann stórsigur á Selfossi í fyrstu viðureign liðanna í úrslitum umspils Olísdeildar karla í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í dag, 40:31. Grótta var sjö mörkum yfir í hálfleik, 23:16. Næst eigast liðin við í Sethöllinni á Selfossi á mánudaginn klukkan 19.30. Vinna þarf þrjá leiki til þess að vinna umspilið. Þriðja viðureign liðanna verður eftir viku.
Grótta var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Selfyssingar voru aldrei nærri þeim. Ekki síst vegna þess að varnarleikur Selfoss var í molum frá byrjun til enda sem lýsir sér í að Grótta skoraði 40 mörk, þar af 23 í fyrri háfleik.

Í hröðum leik var Hannes Pétur Hauksson markvörður Gróttu sannarlega betri en enginn. Eins var Jakob Ingi Stefánsson frábær, skoraði 11 mörk úr 11 tilraunum fyrir Gróttuliðið. Mörg markanna skoraði hann eftir hraðaupphlaup.
Mörk Gróttu: Jakob Ingi Stefánsson 11, Ágúst Ingi Óskarsson 6/2, Alex Kári Þórhallsson 4, Ari Pétur Eiríksson 4, Elvar Otri Hjálmarsson 3, Gísli Örn Alfreðsson 3, Sæþór Atlason 3, Jón Ómar Gíslason 3, Antoine Óskar Pantano 2, Hannes Grimm 1.
Varin skot: Hannes Pétur Hauksson 18, 38,3% – Lárus Gunnarsson 0.
Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 9/6, Jason Dagur Þórisson 4, Hákon Garri Gestsson 3, Sölvi Svavarsson 3, Elvar Elí Hallgrímsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2, Anton Breki Hjaltason 2, Haukur Páll Hallgrímsson 1, Guðjón Baldur Ómarsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 10, 32,3% – Alexander Hrafnkelsson 2, 10%.
Tölfræðin hjá HBStataz.