- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nokkrir dagar í Danmörku hafa valdið pólskiptum

Króatíska landsliðið getur unnið sín fyrstu verðlaun á EM í dag. Mynd/Stanko Gruden / kolektiff
- Auglýsing -

Gríðarlegur áhugi hefur vaknað á meðal almennings í Króatíu fyrir kvennalandsliðinu í handbolta eftir frábæran árangur þess á EM kvenna sem nú stendur yfir í Danmörku. Fátt er um annað talað í landinu um þessar mundir en liðið sem hefur hrifið þjóðina með sér með óvæntum árangri. Áður en EM hófst skelltu menn skollaeyrum við orðum Nenad Šoštarić þjálfara um að vænta mætti góðs árangurs.

Aldrei fyrr í sögunni hefur króatíska kvennalandsliðið náð svo langt á EM. Árangurinn fari fram út villtustu vonum og er liðið er nú komið í undanúrslit í fyrsta sinn. Sætið í undanúrslitum tryggði Króötum farseðilinn í lokakeppni HM sem fram fer á Spáni eftir ár. Verður það í fyrsta sinn í áratug sem Króatar taka þá í lokakeppni HM.

Flestir reiknuðu með að króatíska landsliðið myndi heltast úr lestinni eftir riðlakeppnina. Það hefur ekki riðið feitum hesti frá stórmótum í gegnum tíðina, hafi það á annað borð verið með. Nú kom annað á daginn. Það vann alla leiki sína í riðalakeppninni og tvo af þremur í millriðlum og mætir ríkjandi Evrópumeisturum Frakka í undanúrslitum annað kvöld.

Enginn áhugi

Í morgun tilkynnti ríkissjónvarpsstöðin HRT með stolti að hún hefði keypt sýningaréttinn á undanúrslitaleiknum. Stöðin hafði ekki áhuga á réttinum fyrir mótið og endaði hann hjá lítilli áskriftarstöð sem hefur litla úrbreiðslu. Áhuginn var lítill sem enginn fyrir mótið. Ekki aðeins á meðal sjónvarpsstöðva landsins heldur á meðal þjóðarinnar sem hefur ekki tekið kvennalandsliðið alvarlega.

Sitja sveittir við skriftir


Ekkert af dagblöðum eða netmiðlum Króatíu sendi blaðamenn eða ljósmyndara á mótið. Blaðamenn sitja nú sveittir við tölvur og síma heima við að skrifa fréttir því þjóðinni þyrstir í kynnast þessu einstaka landsliði sem hrifið hefur þjóðina á tímum kórónuveirunnar þegar allt er meira og minna lokað og fátt sem gleður. Þjóðin vill vita allt um liðið.

Meðal þeirra sem sitja við skriftir þessa dagana eru blaðamenn íþróttadagblaðsins Sportske Novisti sem helgaði kvennalandsliðinu sex fyrstu síðurnar í blaði gærdagsins, daginn eftir að króatíska kvennalandsliðið innsiglaði sæti sitt í undanúrslitum með öruggum sigri á Þjóðverjum.


„Fyrir viku hefði það verið óhugsandi að fjallað væri um kvennalandsliðið í handbolta á sex fyrstu síðum blaðsins,“ hefur TV2 í Danmörku eftir Mladen Miletic, blaðamanni hjá Sportske Novisti.

Karlalandsliðið í handknattleik er þjóðareign eftir frábæran árangur á stórmótum allt frá sjálfstæði Króatíu fyrir þremur áratugum. Eins og Nenad Šoštarić, landsliðsþjálfari, sagði á dögunum þá hefur kvennahandbolti alltaf verið talinn annars flokks í Króatíu þótt handknattleikur sé næst vinsælasta íþróttagrein landsins á eftir knattspyrnu.

Nenad Sostaric þjálfari króatíska landsliðsins fylgist rólegur með upphitun fyrir einn leikinn á EM. Mynd/EPA

Einn hafði trú á liðinu

„Šoštarić var sá eini sem hafði trú á liðinu þegar keppni á EM hófst í byrjun desember,“ hefur TV2 eftir serbneska blaðamanninum Zika Bogdanovic, ritstjóra netmiðilsins Balkan-handball.


Šoštarić hefur lifað og hrærst í kvennahandknattleik áratugum saman. Hann er 61 árs gamall og tók við þjálfun landsliðsins fyrir þremur árum. Hann þjálfaði landsliðið einnig 1997 og 1998 og aftur frá 2001 til 2003. „Fyrir mótið var hann bjartsýnn á góðan árangur en það hlustaði bara enginn á hann,“ segir Miletic, hjá Sportske Novisti við TV2.

Bestu konurnar vantar

Þegar rýnt er í króatíska liðið þá kemur í ljós að það er ekki skipað öllum fremstu handknattleikskonum landsins. Aðeins einn leikmaður er frá meistaraliðinu Podravka sem orðið hefur meistari í Króatíu síðustu fimm ár og á sæti í Meistaradeild Evrópu. Skömmu fyrir EM þá heltust sjö leikmenn liðsins úr lestinni vegna kórónuveirunnar. Einn leikmaður liðsins kom þó til Danmerkur á dögunum eftir að hafa jafnað sig og var með í leiknum við Þjóðverja á þriðjudaginn. Það er stórstjarna liðsins, Dejana Milosavljević.

Pijevic hefur slegið í gegn

Einnig saknar liðið besta markvarðar landsins á síðustu árum, Ivana Kapitanovic. Hún leikur með Metz í Frakklandi. Kapitanovic meiddist á hné fyrir þremur mánuðum og gaf ekki kost á sér af þeim sökum. Markvörðurinn Tea Pijevic hefur hinsvegar slegið í gegn á EM eins og fleiri leikmenn. Pijevic er í einu af efstu sætum lista yfir markverði mótsins sem hafa varið hvað flest skot. Fáir höfðu heyrt á hana minnst fyrir mótið, jafnvel þótt hún hafi fært sig yfir í ungversku deildina eftir að hafa leikið með Lokomotiva Zagreb um árabil.

Tea Pijevic markvörður hefur vakið mikla athygli á EM fyrir frábæra frammistöðu í marki króatíska liðsins. Mynd/Stanko Gruden / kolektiff

Agi og skipulag

Uppistaða liðsins eru leikmenn frá Lokomotiva Zagreb sem er talsvert veikara en meistaraliðið, Podravka. Samstaðan hefur hinsvegar verið mikil og leikaðferðir þær sem Šoštarić hefur tamið liðinu hafa skilað mögnuðum árangri. Frábær varnarleikur og markvarsla og agaður og kerfisbundinn sóknarleikur.

Leika með hjartanu

„Króatar hafa komið sjálfum sér og öllum öðrum mjög á óvart á EM. Þeir leika öðruvísi handbolta en flestir aðrir auk þess sem þeir leika með hjartanu, eins og sagt er,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins við handbolta.is á dögunum áður en hann mætti króatíska landsliðinu. Þóri og leikmönnum hans tókst með þolinmæði að brjóta króatíska liðið á bak aftur í eina tapleik þess á mótinu til þessa.


„Við gerðum smá áherslubreytingar á varnarleik okkar í hálfleik en fyrst og fremst snerist leikur okkar um þolinmæði og að halda uppi hraða leiksins. Við vissum að króatíska liðið myndi aldrei fylgja okkar í hraða leikinn á enda. Það kom á daginn,“ sagði Þórir við handbolta.is eftir sigurinn á Króötum.

Breytt hugarfar

Nú er spurningin sú hvort franska liðið hefur þolinmæðina annað kvöld þegar það mætir Króötum eða hvort agi og styrkur Króata dugi til að fleyta liðinu alla leið í úrslitaleikinn.
Hvernig sem allt fer þá segir Mladen Miletic blaðamaður hjá Sportske Novisti að hér eftir muni Króatar taka kvennalandslið sitt alvarlega og það verður ekki stimplað annars flokks.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -