Roberto Garcia Parrondo þjálfari þýska liðsins MT Melsungen skildi sex öfluga leikmenn eftir heima þegar lagt var af stað til Íslands í morgun. Annað hvort eru þeir meiddir eða einfaldlega gefið frí eftir miklar annir síðustu vikur. Yngri leikmenn fá tækifæri til þess að láta ljós sitt skína í bland við nokkrar reyndari leikmenn.
Þar á ofan virðist þýska liðið vera nokkuð vongott um sigur eftir að hafa unnið fyrri leikinn við Val ytra í síðustu viku með 15 marka mun, 36:21.
Arnar og Elvar mæta
Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson eru á meðal þeirra sem koma með Melsungen-liðinu til landsins síðar í dag. Leikur Vals og Melsungen hefst klukkan 19.45 á morgun í N1-höll Valsara á Hlíðarenda. Miðasala er stubb.is.
Leikmennirnir sex sem eftir urðu heima eru: Timo Kastening, David Mandic, Erik Balenciaga, Dainis Kristopans, Adrian Sipos og Nebojsa Simic. Kastening er fyrirliði Melsungen. Nokkrir þeirra voru heldur ekki með Melsungen-liðinu í fyrri viðureigninni við Val á síðasta þriðjudag í Kassel.
Melsungen er efst í H-riðli Evrópdeildarinnar með sex stig eftir þrjár viðureignir. Einnig er liðið efst í þýsku 1. deildinni með 14 stig að loknum átta viðureignum.