Norðmaðurinn Daniel Birkelund hefur verið ráðinn þjálfari Þórs, nýliðanna í Olísdeild karla á næstu leiktíð. Þórsarar tilkynntu um ráðningu hans í kvöld. Birkelund tekur við af Halldóri Erni Tryggvasyni sem stýrði Þórsliðinu til sigurs í Grill 66-deildinni í byrjun vors.
Birkelund er þrautreyndur þjálfari sem var síðast hjá danska liðinu Lemvig-Thyborøn í næst efstu deild karla á nýliðnu keppnistímabili. Auk þess að þjálfa félagslið, í handbolta akademíum í Noregi og einnig yngri landslið Noregs, m.a. með Akureyringnum Axel Stefánssyni þá var Birkelund um skeið aðstoðarþjálfari Siofok KC í Ungverjalandi fyrir fimm árum. Síðar var Birkelund um þriggja ára skeið þjálfari Skövde í Svíþjóð.
Birkelund er með Master Coach-réttindi, efstu þjálfaragráðu Handknattleikssambands Evrópu.
Þórsarar binda miklar vonir við Birkelund. Auk þess að þjálfa meistaraflokkslið Þórs á hann að móta stefnu yngri flokka og ýta undir enn meiri uppbyggingu, segir í tilkynningu Þórs í kvöld.