- Auglýsing -

Norðmenn mæta til Íslands í byrjun mars

Sandra Erlingsdóttir, Katrín Tinna Jensdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Thea Imani Sturludóttir, landsliðskonur í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna mætir B-landsliði Noregs (rekruttjentene) í tveimur vináttuleikjum hér á landi í byrjun mars. Leikirnir verða liður í undirbúningi íslenska landsliðsins vegna leikja við Ungverjaland í umspili vegna keppnisréttar á heimsmeistaramótinu. Umspilsleikirnir við Ungverja verða um það bil mánuði eftir leikina við B-landslið nýkrýndra Evrópumeistara.


„Leikirnir við Noreg hafa verið staðfestir sem er frábært,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í samtali við handbolta.is eftir að dregið var í umspilsleikina á laugardaginn.

Æfingadagar í mars

Leikirnir við Norðmenn fara í næsta alþjóðlega glugga kvennalandsliðs en nærri hálfs mánaðar hlé verður gert á keppni í Olísdeild kvenna frá lokum febrúar og fram undir miðjan mars vegna leikjanna og æfingabúða íslenska landsliðsins vegna þeirra og umspilsleikjanna í apríl.

B-landslið Noregs (rekruttjentene) í handknattleik kvenna hefur komið saman í sex skipti á þessu ári. Síðast var það við æfingar og keppni í lok október og í byrjun nóvember og tók þátt í móti í Tékklandi. Í lok september og byrjun október var liðið einnig saman við æfingar og fór m.a. til Norður Makedóníu til leikja við A-landslið Norður Makedóníu sem tók síðar þátt í EM sem lauk í gær. Liðið er ætlað sem undirbúningur fyrir verðandi leikmenn A-landsliðsins. 

Mjög spennandi leikir

„Þar með er ljóst að við fáum alvöru leiki við frábært lið i aðdraganda viðureignanna við Ungverja sem bíða okkur í framhaldinu. Þetta er mjög spennandi að mæta norska liðinu og síðan því ungverka í umspilinu. Við erum á ákveðinni vegferð í kvennalandsliðinu. Þessir leikir eru skref á þeirri leið,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.


Eins og handbolti.is sagði frá á laugardaginn var dregið í umspilsleikina fyrir HM á laugardaginn. Rétt er að rifja upp hvaða þjóðir drógust saman og hvenær leikirnir fara fram.

Tyrkland - Serbía.
Rúmenía - Portúgal.
Ísland - Ungverjaland.
Pólland - Kosovó.
Ítalía - Slóvenía.
Þýskaland - Grikkland.
Sviss - Tékkland.
Austurríki - Spánn.
Norður Makedónía - Úkraína.
Slóvakía - Króatía.

- Fyrri umferðin fer fram föstudaginn (langa) 7. og laugardaginn 8. apríl á næsta ári og sú síðari þriðjudaginn 11. og miðvikudaginn 12. apríl.

- Liðin sem talin eru upp á undan eiga heimaleik í fyrri umferð.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -