- Auglýsing -
- Auglýsing -

Norðurlandameistarar 1964 – „ógleymanleg stund fyrir íslenzkan handknattleik“

Norðurlandameistararnir 1964: Aftari röð f.v.: Pétur Bjarnason landsliðsþjálfari, Sigrún Ingólfsdóttir, Hrefna Pétursdóttir, Margrét Hjálmarsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir fyrirliði, Jónína Jónsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Sigurður Bjarnason sem var í landsliðsnefnd kvenna. Fremri röð: Sylvía Hallsteinsdóttir, Sigurlín Björgvinsdóttir, Sigríður Kjartansdóttir, Helga Emilsdóttir. Fjarverandi var Díana Óskarsdóttir. Hún býr í Bandaríkjunum.Þrjár er látnar: Ása Jörgensdóttir, Svana Jörgensdóttir og Rut Guðmundsdóttir. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Þess var minnst í gær að um þessar mundir eru 60 ár liðin frá því að íslenska landsliðið í handknattleik kvenna varð Norðurlandameistari á fyrsta Norðurlandamótinu sem haldið var hér á landi í handknattleik. Ellefu af 15 leikmönnum Norðurlandameistaraliðsins mættu á Laugardalsvöll í gær og gengu inn á leikvöllinn með Sigríði Sigurðardóttur fyrirliða fremsta í flokki undir lófaklappi ásamt þjálfara sínum, Pétri Bjarnasyni.

Íslenska landsliðið vann þrjá leiki á mótinu, Svía 5:4, Finna 14:5, og Norðmenn 9:7. Fyrsta leiknum á mótinu, við Dani, lauk með jafntefli 8:8. Sigurinn kom á óvart vegna þess að á þessum tíma var danska landsliðið ógnarsterkt og hafði m.a. unnið silfurverðlaun á HM 1963.

Fyrstu leikir í fjögur ár

Ísland hafnaði í öðru sæti á Norðurlandamótinu 1960 en hafði frá þeim tíma ekki leikið einn landsleik þegar kom að Norðurlandamótinu í Reykjavík fjórum árum síðar. Sex af 15 leikmönnum íslenska landsliðsins á NM 1964 voru í landsliðinu á NM fjórum árum áður. Hópurinn var þar af leiðandi mikið breyttur og lítt reyndur í alþjóðlegri keppni.

Vandaður undirbúningur

Vandað var til undirbúnings íslenska landsliðsins eins og kostur var á. Mikið var lagt í æfingar auk þess sem farið var út úr bænum í æfingabúðir. Þegar að mótinu kom gistu leikmenn saman í stað þess að fara hver til síns heima.

Fjögur þúsund áhorfendur

Fjögur þúsund áhorfendur mættu á Laugardalsvöll síðasta keppnisdag Norðurlandamótsins sem var stærsta verkefni sem Handknattleikssamband Íslands hafði tekið að sér á þeim sjö árum sem liðin voru frá stofnun þess. Mikil gleði ríkti þegar Norðurlandameistaratitillinn var í höfn og voru íslensku landsliðskonurnar og þjálfari kölluð hvað eftir annað fram á leikvöllinn.

Aldrei verið önnur eins stemning

„Aldrei hefur önnur eins „stemmning“ verið við lok eins móts og í gærkvöld á Laugardalsvellinum. Hinir yfirleitt þöglu áhorfendur hér slitu af sér öll bönd hins hljóðláta borgara og tjáðu gleði sína með langvarandi hrópum,“ segir í frásögn Þjóðviljans að lokum Norðurlandamótsins. „Þetta var ógleymanleg stund fyrir íslenzkan handknattleik.“

Mynd/Morgunblaðið

Um kvöldið bauð Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra öllum þátttakendum Norðurlandamótsins til kvöldverðar þar sem hann afhenti Sigríði Sigurðardóttur fyrirliða bikarinn sem Sigríður er með á myndinni efst í þessari grein og hélt á þegar hún gekk inn á Laugardalsvöll í gær í fylgd Rögnvalds Erlingssonar dómara og sjá má á myndskeiðinu efst í fréttinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -