Íslandsmeistarar Fram í handknattleik karla búa sig undir að taka móti norsku meisturunum, Elverum, í Lambhagahöllinni annað kvöld í annarri umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Flautað verður til leiks á klukkan 18.45. Eins og fyrir viku verður mikið um dýrðir í Lambhagahöllinni en virkilega vel tókst til hjá Fram fyrir viku þegar leikið var við Porto.
Miðasala á Fram – Elverum á stubb.is
Bæði Fram og Elverum töpuðu í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar þriðjudaginn fyrir viku. Elverum beið lægri hlut á heimavelli fyrir HC Kriens-Luzern, 34:31. Fram tapaði fyrir FC Porto, 38:26.
Íslendingar með Elverum
Með Elverum leikur Íslendingurinn Tryggvi Þórisson frá Selfossi. Hann gekk til liðs við norsku meistarana í sumar eftir þriggja ára veru hjá IK Sävehof. Tryggvi er orðin árlegur gestur hér á landi. Hann kom einnig til Íslands fyrir ári og lék með sænska liðinu gegn FH í Kaplakrika í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Situr í öðru sæti
Tryggvi skoraði tvö mörk á laugardaginn þegar Elverum vann Oslóarliðið Bækkelaget, 31:26, Nordstrand Arena. Elverum situr í öðru sæti í norsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir Kolstad en hefur reyndar leikið einum leik fleiri en Þrándheimsliðið Kolstad.
Þjálfari Elverum er Børge Lund sem árum saman lék með norska landsliðinu og þýskum félagsliðum. Lund hefur þjálfað Elverum í fimm ár. Hann tók við af Svíanum Michael Apelgren, sem nú þjálfar Janus Daða Smárason og félaga í ungverska liðinu Pick Szeged.
