- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýárskaffi: Gunnar, Janus, uppselt á EM, Zaadi

Gunnar Magnússon og Ágúst Þór Jóhannsson. Mynd/Ívar
- Auglýsing -
  • Gunnar Magnússon hefur látið af störfum íþróttastjóra HSÍ. Hann hefur sinnt því starfi samhliða þjálfun karlaliðs Aftureldingar undanfarin ár auk þess að vera aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og um skeið aðalþjálfari landsliðsins ásamt Ágústi Þór Jóhannssyni. Eftirmaður Gunnars hjá HSÍ hefur ekki verið ráðinn. 
  • Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg er 29 ára gamall í dag, nýársdag. Handbolti.is sendir Janus Daða hamingjuóskir með afmælið og um leið ósk um farsælt og gleðilegt nýtt ár. 
  • Uppselt er á alla þrjá leiki þýska landsliðsins í handknattleik karla í riðlakeppni EM. Ríflega 50 þúsund áhorfendur hafa keypt miða á upphafsleik Þjóðverja við Sviss í Merkur Spiel-Arena knattspyrnuleikvanginum í Düsseldorf að kvöldi 10. janúar. Hinir tveir leikir þýska landsliðsins í riðlakeppninni fara fram í  Mercedes Benz Arena í Berlín 14. og 16. janúar. Talsvert er síðan uppselt var á þær viðureignir. Mercedes Benz Arena rúmar 14.800 áhorfendur í sæti. 
  • Enn mun vera hægt að fá miða í milliriðlakeppni EM í Köln þangað sem þýska liðið fer ef allt gengur að óskum í riðlakeppninni. Sömu sögu er að segja af íslenska landsliðinu. Það heldur til Kölnar frá München að lokinni riðlakeppninni gangi flest liðinu í hag í riðlakeppninni. Íslenska landsliðið gæti þar með orðið einn andstæðinga þýska landsliðsins sem er undir stjórn Alfreðs Gíslasonar í milliriðlakeppni í LanxessArena í Köln dagana 18. til 24. janúar. 
  • Grace Zaadi, ein kjölfesta franska landsliðsins í handknattleik kvenna sem varð heimsmeistari á dögunum, hefur samið við slóvensku meistarana Krim Ljubljana frá og með næstu leiktíð. Zaadi, sem stendur á þrítugu, hefur leikið með CSM Búkarest í hálft annað ár. Krim samdi í haust við stórskyttuna Önu Gros um að koma heim sumarið 2024 svo ljóst er að forráðamenn liðsins ætla sér að bíta í skjaldarrendur fyrir næsta keppnistímabil.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -