Í morgun var opinberað að Matthildur Lilja Jónsdóttir, liðlega tvítugur leikmaður ÍR, verður í landsliðshópnum sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku. Matthildur Lilja hefur ekki áður tekið þátt í stórmóti A-landsliða. Hún segist óvænt verða að hugsa dagskrá næstu vikna upp á nýtt, stokka upp spilin, því samhliða óvæntri þátttöku á HM standi fyrir dyrum fjögur próf í háskólanum en Matthildur Lilja er á öðru ári í hjúkrunarfræði.
„Ég er ótrúlega glöð að hafa verið kölluð inn í hópinn. Ég var látin vita á föstudaginn að þetta stæði fyrir dyrum. Þetta voru ótrúlega góðar fréttir um helgina,“ sagði Matthildur Lilja þegar handbolti.is hitti hana stuttlega að máli fyrir fyrstu æfingu landsliðsins í Safamýri í kvöld.
„Ég er að fara í fjögur lokapróf sem verða á dagskrá meðan ég verð með landsliðinu. Ég verð að reyna að taka þau á meðan ég verð úti í Þýskalandi. Ég var að vinna í þessum málum í dag en hef ekki leyst þau ennþá,“ sagði Matthildur Lilja sem er staðráðin í að láta prófin ekki stöðva sig frá því að vera hluti af íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu.
Fyrst og fremst heiður
„Fyrst og fremst er það mikill heiður að fá tækifæri til þess að taka þátt í HM og vera hluti af þessum hóp og fara á fyrsta stórmótið,“ sagði Matthildur Lilja Jónsdóttir eldhress og spennt þegar handbolti.is hitti hana að máli.
Lengra viðtal við Matthildi Lilju er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig: Matthildur Lilja bætist við HM-hópinn




