- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Oddaleikur að Varmá á þriðjudagskvöld eftir háspennu

Tandri Már Kornáðsson fyrirliði Stjörnunnar og félagar mæta í oddaleik að Varmá á þriðjudaginn. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjarnan krækti í oddaleik við Aftureldingu í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik með því að vinna Mosfellinga, 27:25, í Heklu-höllinni í dag. Oddaleikurinn fer fram að Varmá í Mosfellsbæ á þriðjudagskvöld. Leikurinn í dag var að mörgu leyti spegilmynd af viðureign liðanna að Varmá á miðvikudagskvöld. Að þessu sinni snerust hlutverkin við. Stjörnumenn voru lánsamari á lokasprettinum.

Afturelding átti sókn á síðustu hálfu mínútunni og gat jafnað metin. Sóknin endaði ekki með marki og Pétur Árni Hauksson skoraði 27. markið áður en lokaflautið gall, 27:25. Á miðvikudaginn gat Stjarnan jafnað leikinn á síðustu sekúndu.
Hér er upptaka af síðustu sekúndum leiksins.

Stjarnan var mikið öflugri í fyrri hálfleik. Vörn liðsins var frábær og Adam Thorstensen afar vel á verði í markinu. Þegar fyrri hálfleikur var úti var sex marka munur á liðunum, 16:10.

Líkt og Stjarnan gerði í fyrsta leiknum þá sótti Afturelding á andstæðing sinn framan af síðari hálfleiks. Forysta heimamanna var áfram tvö til fjögur mörk. Níu mínútum fyrir leikslok var Stjarnan fjórum mörkum yfir, 24:20. Mosfellingar voru ekki af baki dottnir. Birgir Steinn Jónsson var mikilvægur á lokasprettinum og átti drýgstan þáttinn í að Afturelding jafnaði, 24:24 og 25:25.

Lokaspretturinn var æsilegur og ljóst að leikmenn jafnt sem áhorfendur verða að búa sig vel undir oddaleikinn á þriðjudagskvöld. Hann mun verða taugatrekkjandi ef að líkum lætur.

Mörk Stjörnunnar: Þórður Tandri Ágústsson 6, Starri Friðriksson 4/2, Tandri Már Konráðsson 4, Daníel Karl Gunnarsson 3, Hergeir Grímsson 3, Pétur Árni Hauksson 3, Egill Magnússon 3, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 15/3, 37,5%.

Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 9/1, Birkir Benediktsson 5, Árni Bragi Eyjólfsson 5/1, Jakob Aronsson 3, Ihor Kopyshynskyi 2, Leó Snær Pétursson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 13, 44,8% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2, 15,4%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -