Svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen með Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmann innanborðs, verður að mæta Pfadi Winterhur í oddaleik í undanúrslitum úrslitakeppninnar um meistaratitilinn. Winterthur vann fjórðu viðureign liðanna á heimavelli í gær, 29:28. Hvort lið hefur þar með tvo vinninga. Oddaleikurinn fer fram í Schaffhausen eftir viku, 2. maí.
Óðinn Þór var þriðji markahæstur leikmanna Kadetten í leiknum í Winterthur í gær. Óðinn Þór skoraði fjögur mörk, þar af eitt úr vítakasti.
Hinn rimma undanúrslitanna, á milli GC Zürich og HC Kriens, er einnig jöfn, 2:2, í vinningum talið. Oddaleikurinn fer fram á heimavelli HC Kriens sama dag og Kadetten og Pfdadi Winterthur reyna með sér.
Kadetten vann HC Kriens í úrslitum um svissneska meistaratitilinn á síðasta ári.