- Auglýsing -
- Auglýsing -

Oddaleikur í Eyjum á þriðjudaginn

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Haukar knúðu fram oddaleik í undanúrslitarimmunni við deildarmeistara ÍBV í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag. Haukar unnu á heimavelli eftir framlengingu, 29:26.

Oddaleikur liðanna verður í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn og hefst klukkan 18. Hvort lið hefur unnið tvisvar sinnum. Reikna má með að það sjóði á keipum í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á þriðjudagskvöld ef marka má fyrri viðureignir liðanna í einvíginu.

Staðan var jöfn eftir hefðbundinn leiktíma, 22:22. Sunna Jónsdóttir jafnaði metin þegar hálf önnur mínúta var til loka á 60 mínútna leik.

Haukar voru sterkari í framlengingunni. Tóku strax völdin og léku af af krafti með Ragnehiði Sveinsdóttur, Elísu Helgu Sigurðardóttur, ungan markvörð, í stórum hlutverkum.
Vörn ÍBV gaf eftir í framlengingunni og ágæt marktækifæri fóru forgörðum.

Haukar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11. Síðari hálfleikur var hnífjafn og spennandi. Vart mátti á milli liðanna sjá enda var jafnt þegar 60 mínútur voru liðnar.

Mikið mæddi og mæðir á Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, Elísu Elíasdóttur og Sunnu Jónsdóttur í liði ÍBV auk markvarðarins Marta Wawrzykowska. Ekki er skrýtið að það sé farið að síga í leikmenn þegar þétt er leikið. Svo virtist a.m.k. vera að þessu sinni.


Breiddin í leikmannahópi Hauka skilaði sér vel að þessu sinni. Hver leikmaðurinn á fætur öðrum tók af skarið. Það skilaði sér þegar upp var staðið og skilaði liðinu oddaleik þar sem allt getur gerst í fullri keppnishöllinni í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn.

Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttirm 6, Sara Odden 6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Natasja Hammer 3, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Ena Car 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 2, Ragnheiður Sveinsdóttir 2, Berglind Benediktsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 7/1, 43,8% – Margrét Einarssdóttir 5, 22,7%.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 8, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6, Elísa Elíasdóttir 5, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Ingibjørg Olsen 1, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Karolina Olszowa 1, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Amelía Einarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 14/3, 32,6%.

Handbolti.is var á Ásvöllum og sagði frá því helsta í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -