- Auglýsing -
- Auglýsing -

Odden verður liðsfélagi Díönu Daggar

Sara Odden leikur í þýsku 1. deildinni á næsta keppnistímabili. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Sænsk-norska handknattleikskonan Sara Odden, sem leikið hefur með Haukum undanfarin þrjú ár, verður samherji Díönu Daggar Magnúsdóttur hjá þýska 1. deildarliðinu BSV Sachsen Zwickau frá og með næsta keppnistímabili.


Þýska félagið segir frá því dag að Odden, sem er 27 ára gömul, hafi samið við félagið en mikil uppstokkun verður á leikmannahópi BSV Sachsen Zwickau í sumar. Átta leikmenn liðsins á nýliðinni leiktíð annað hvort róa á önnur mið eða leggja skóna á hilluna. Á síðustu vikum hefur félagið samið við hvern leikmanninn á fætur öðrum og m.a. var endursamið við Díönu Dögg.


BSV Sachsen Zwickau bjargaði sér naumlega frá falli úr 1. deildinni á dögunum með því að leggja Göppingen samanlagt í tveimur viðureignum um keppnisrétt í deildinni. Zwickau vann sér sæti í 1. deildinni fyrir ári eftir aldarfjórðung í annarri deild.

Sara Odden í leik með Haukum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Odden hefur verið í stóru hlutverki hjá Haukum undanfarin þrjú ár. Hún er rétthent skytta og hefur verið meðal markahæstu leikmanna Olísdeildarinnar. Odden lék með Tyresö áður en hún gekk til liðs við Hauka.


Odden er þriðji leikmaðurinn sem kvatt hefur Hauka eftir leiktíðina. Hinar eru Ásta Björt Júlíusdóttir og Berta Rut Harðardóttir. Ásta Björt fór til ÍBV en ekki hefur komið fram hvert Berta Rut fer að öðru leyti en að margt bendir til þess að hún fari með kærasta sínum Ásgeiri Snæ Vignissyni sem yfirgaf ÍBV eftir leiktíðina og samdi við sænska úrvalsdeildarliðið Helsingborg.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -