Daníel Þór Ingason og Oddur Gretarsson voru aðsópsmiklir í kvöld þegar lið þeirra, Balingen-Weilstetten, vann VfL Lübeck-Schwartau örugglega, 28:21, í fyrsta heimaleik Balingen á leiktíðinni í þýsku 2. deildinni. Lübeck-Schwartaupiltar voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 9:8.
Daníel Þór skoraði fjögur mörk í fimm skotum og átti tvær stoðsendingar. Oddur skoraði þrjú mörk, þar af eitt úr vítakasti. Balingen-Weilstetten, sem féll úr 1. deild í vor, hefur unnið tvær fyrstu viðureignir sína til þessa í deildarkeppninni.
Fyrsti leikur Söndru
Á sama tíma og Balingen vann tvö stig hóf grannliðið TuS Metzingen keppnistímabilið á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik kvenna með sigri á heimavelli á HSG Bad Wildingen Vipers, 32:27. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þá ástæðu að Sandra Erlingsdóttir, landsliðskona og unnusta Daníels Þórs, er leikmaður Metzingen. Hún gekk til liðs við liðið í sumar eftir tveggja ára veru hjá EH Aalborg.
Sandra skoraði þrjú mörk í leiknum og átti þrjár stoðsendingar í sínum fyrsta leik í deildinni. Metzingen var með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. með fjögurra marka forskot í hálfleik, 16:12.
- Auglýsing -