Haukum bíður erfitt verkefni í dag þegar þeir mæta bosníska liðinu HC Izvidac í fyrri umferð í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik á Ásvöllum. Leikurinn hefst klukkan 16.
Margir Króatar
HC Izvidac hefur á að skipa fjölmennum leikmannahóp sem að uppistöðu til er frá Króatíu en alls eru 13 leikmenn frá nágrannalandinu í hópnum. Þar á meðal er hinn tvítugi Diano Cesko sem er markahæsti leikmaður Evrópubikarkeppninnar.
Er markahæstur
Cesko sem er hægrihandar skytta hefur skorað 52 mörk til þessa, þar af aðeins fjögur úr vítaköstum. Leikmenn HC Izvidac eru hávaxnir og sterklegir að sjá, flestir hverjir. Á því er þó undantekning í miðjumanninum snjalla, Milan Vukšic sem leikið hefur andstæðinga HC Izvidac grátt í mörgum leikjum Evrópubikarkeppninnar fram til þessa.
Efstir í deildinni
HC Izvidac er í efsta sæti í 14 liða úrvalsdeild í Bosníu eftir 17 leiki. Af því eru 13 sigurleikir, þrjú jafntefli og eitt tap. Liðið er þremur stigum á undan Konjuh Zivinice sem er í öðru sæti og hefur auk þess leikið einum leik fleira.
Taplausir
Haukar hafa leikið sex leiki í Evrópubikarkeppninni á tímabilinu og ekki tapað. Fyrst lögðu Haukar finnska liðið HC Cocks, þar á eftir Kür frá Aserbaísjan og loks RK Jeruzalem Ormoz frá Slóveníu í 16-liða úrslitum í síðasta mánuði.
- HC Izvidac vann ítalska liðið Raimond Sassari samanlagt með fimm marka mun, 71:66, í tveimur leikjum í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í október. Efir það tóku við tveir spennandi leikir við úkraínska liðið HC Motor í lok nóvember. HC Izvidac vann naumlega, 73:72, samanlagt eftir tveggja marka sigur á heimavelli 30. nóvember 41:39.
- Í 16-liða úrslitum hafði HC Izvidac betur í tveimur leikjum við Sabbianco Anorthosis Famagusta frá Kýpur, 55:50. Fyrri viðureignin, sem fram fór á Kýpur lauk með jafntefli, 25:25. HC Izvidac vann á heimavelli, Sportska Dvorana Ljubuski, 30:25.
