Oft hefur gengið betur hjá liðum íslensku landsliðskvennanna í þýsku 1. deildinni í handknattleik en í dag. Díana Dögg Magnúsdóttir, fyrirliði BSV, og samherjar hennar í Sachsen Zwickau töpuðu illa á heimavelli fyrir HSG Bensheim/Auerbach eftir að botninn datt úr leik liðsins í síðari hálfleik. Sandra Erlingsdóttir og félagar í TuS Metzingen töpuðu með sex marka mun í heimsókn til Oldenburg, 39:33.
„Seinni hálfleikur var hræðilegur hjá okkur í dag. Bara vandræðleg frammistaða eftir fínan fyrri hálfleik,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is eftir tapleikinn í dag. BSV Sachsen Zwickau var tveimur mörkum undir í hálfleik, 15:13, en tapaði síðari hálfleik með 12 marka mun, og leiknum samanlagt 34:20.
Díana Dögg var maður leiksins hjá BSV Sachsen Zwickau. Hún skoraði 4 mörk, átti sjö stoðsendingar, skapaði fimm færi og fiskað tvo andstæðinga af leikvelli. Díana Dögg var valin besti leikmaður BSV Sachsen Zwickau.
BSV Sachsen Zwickau er í 11. sæti af 14 liðum en stöðuna í deildinni er að finna hér fyrir neðan.
Sandra kom ekki mikið við sögu hjá TuS Metzingen í tapleiknum í Oldenburg. Hún skoraði ekki mark en er skráð með eina stoðsendingu. Metzingen hafði sætaskipti við Oldenburg eftir leikinn. Metzingen er í sjötta sæti en Oldenburg í því fimmta.
TuS Metzingen tekur á móti Borussia Dortmund á miðvikudaginn í leik sem var frestað fyrr á leiktíðinni. BSV Sachsen Zwickau sækir Oldenburg heim á næsta laugardag. Daginn eftir fer Metzingen í heimsókn til Buxtehuder.
Fimm umferðir eru eftir í þýsku 1. deildinni.