- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Afríkumeistararnir vöfðust ekki lengi fyrir þeim evrópsku

Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna unnu sannfærandi sigur á Afríkumeisturum Angóla í lokaleik 2. umferðar A-riðils handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó, 30:21. Norska liðið var fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:10.


Angólaliðið byrjaði leikinn af krafti og átti í fullu tré við það norska fyrsta stundarfjórðunginn. Upp úr þeim tíma skildu leiðir. Norska vörnin batnaði verulega og Katerine Lunde tók að verja allt hvað af tók. Í framhaldinu náðu Norðmenn hröðum sóknum sem varð þess valdandi að munurinn jókst jafnt og þétt.


Norska liðið hóf síðari hálfleik af krafti og náði fljótlega níu marka forskoti, 20:11. Eftir það virtust leikmenn beggja liða helst bíða eftir að leiknum lyki. Norska liðið slakaði verulega á og talsvert af góðum marktækfærum fóru í súginn og sendingar biluðu hvað eftir annað. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins, sá þar af leiðandi ástæðu til þess taka leikhlé þegar níu mínútur voru til leiksloka og tala hressilega við leikmenn sína, minna þá á að halda einbeitingu allt til leiksloka.


Sanna Solberg var markahæst hjá Noregi. Hún skoraði níu mörk. Veronica Kristiansen var næst með sex mörk og Henny Reistad var næst með fjögur.
Lunde var frábær í markinu. Hún varði 14 skot, 42% hlutfallsmarkvarsla. Átti hún stærstan þátt í að sigur Noregs varð jafn öruggur og raun bar vitni um.


Albertina Kassoma var markahæst hjá Angóla með sex mörk ásamt Isabel Guialo.


Angóla hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á leikunum meðan Norðmenn eru með fullt hús og 21 mark í plús.


Úrslit í A-riðli í dag:
Suður Kórea – Holland 36:43.
Noregur -Angóla 30:21.
Japan – Svartfjalland 29:26.
Staðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore


Næstu leikir fimmtudaginn 29. júli:
00.00 Holland – Angóla.
05.15 Japan – Suður Kórea.
07.15 Svartfjallaland – Noregur (Þórir Hergeirsson).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -